Innlent

Varað við fljúgandi hálku

Vegagerðin varar við fljúgandi hálku víðast hvar á landinu og við það bætist að víða er búist við talsverðu hvassviðri, að sögn Þorsteins Jónssonar veðurfræðings. Hann segir fólk alls ekki eiga að leggja í ferðalög nema á mjög vel búnum bílum. Hann segir að vindur geti farið yfir 30 metra á sekúndu, auk þess sem mjög hált sé víða. Vegagerðin hvetur fólk til að kynna sér veðurspá vel áður en lagt er í langferðir, þar sem vindur og fjúgagndi hálka skapa stór hættuleg akstursskilyrði. Annars hafa umhleypingar verið mjög hraðar síðustu sólarhringa og ekki hvað síst síðasta sólarhringinn. Björgunarsveitarmenn úr Hveragerði og Lögreglan í Árnessýslu stóðu í ströngu í alla nótt við að hjálpa fólki, sem lent hafði í vandræðum á Hellisheiði vegna óveðurs, sem brast á upp úr klukkan eitt í nótt. Engin lenti þó í alvarlegum hrakningum og engin slasaðist. Tengivagn fauk aftan úr flutningabíl við syðri enda Hvalfjarðarganga í vindhviðu í nótt og vindhraðinn undir Hafnarfjalli komst upp í 40 metra á sekúndu. Lítill fiskibátur slitnaði frá bryggju á Akranesi og rak upp í grjótgarð, en hann náðist aftur á flot og var dreginn að bryggju. Þá féll lítið snjóflóð á Hnífsdalsveg en Vegagerðarmenn eru búnir að hreinsa það af veginum. Veðrið gekk niður um suðvestanvert landið undir morgun, en búast má við stormi á stöku stað norðanlands í dag og hvassviðri við Suðruströndina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×