Innlent

Hefur leitt til hækkunar orkuverðs

Orkuverð til almennings hefur nær undantekningalaust hækkað í nágrannalöndum okkar, en lækkað til stórkaupenda með því að aðskilja raforkuframleiðslu og dreifingu, eins og til stendur að gera hér á landi um áramótin. Breytingin er gerð í kjölfar lagasetningar á Alþingi í fyrra, sem sögð var gerð með hliðsjóna af samræmdum kröfum á þessu sviði í Evrópusambandinu og þar með Evrópska efnahagssvæðinu. Bent hefur verið á að Ísland hefði auðveldlega getað fengið undanþágu til þessa þar sem íslenska kerfið er lokað, það er að við tengjumst ekki öðrum orkukerfum og flytjum því hvorki út raforku né inn. Þannig er því til dæmis háttað á eynni Möltu, sem sótti um undantekningu, sem fékk jákvæðar undirtektir. Þá setti Evrópusambandið reglurnar til þess að efla samkeppni innan raforkugeirans, en það virðist ætla að mistakast. Svo dæmi sé tekið af stórum markaði eins og Þýskalandi, þá hófu mörg fyrirtæki þar dreifingu þegar reglurnar tóku gildi. Reyndin er hinsvegar sú að stóru fyrirtækin tóku brátt að gleypa þau litlu og í framhaldi af því hafa stóru fyrirtækin svo verið að sameinast þannig að sérfræðingar segja að samkeppni á þessum vettvangi sé nánast úr sögunni í Þýskalandi og að þróunin sé í sömu átt í fleiri löndum Sambandsins. Vegna innmötunargjalds sem raforkufyrirtæki þurfa framvegis að greiða fyrir að senda raforku inn á landsnetið, blasir auk þess við að raforka til almennings mun hækka meira á veitusvæðum Hitaveitu Reykjaness og Orkuveitur Reykjavíkur en víðast annarsstaðar á landinu. Til stóð að Orkuveita Reykjavíkur tæki ákvörðum um nýja gjaldskrá í dag, en fundinum hefur verið frestað fram yfir áramót.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×