Innlent

Íslendinga leitað á sjúkrahúsum

Íslendinga á ferð um Taíland hefur verið leitað á sjúkrahúsum í Phuket í Taílandi. Utanríkisráðuneytið hefur ekki haft upp á tólf manns sem ættingjar sakna. Nöfnum og kennitölum þeirra hefur verið komið til taílenskra stjórnvalda og danskra, segir Pétur Ásgeirsson, skrifstofustjóri almennrar skrifstofu utanríkisráðuneytisins. Pétur segir að í tólf manna hópnum séu Íslendingar búsettir vetrarlangt á Pattaya í Taílandi, einn á ferðalagi og fimm manna fjölskylda sem ferðast hafi til Balí. Hvorki Balí né Pattaya varð fyrir flóðbylgju. Þórir Guðmundsson, upplýsingafulltrúi Rauða kross Íslands, segir tvær formlegar beiðnir hafa borist um aðstoð við leit ættingja landsmanna af erlendum ættum. Önnur í Taílandi, hin á Sri Lanka. Þórir segir ákveðið að starfsmaður Rauða krossins fari til Sri Lanka á næstu dögum til almennra hjálparstarfa. Somjai Sirimekha, túlkur hjá Alþjóðahúsinu, starfar með Rauða krossinum við að leita ættingja landsmanna ættaða frá Taílandi. Hún segir að haft hafi verið uppi á allflestum. Sjálf sakni hún vina og kunningja frá Patong-strönd, en fjölskylda hennar sé óhult. Dótturfyrirtæki Icelandair, Loftleiðir, flaug á vegum sænskra stjórnvalda að sækja sænska ríkisborgara til Phuket, samkvæmt Guðjóni Arngrímssyni, upplýsingafulltrúi Icelandair. Pétur segir ekki hafa komið til tals hjá utanríkisráðuneytinu að Íslendingarnir verði sóttir. Þeir hafi ekki óskað þess. Hins vegar hafi hópur fólks á Phuket óskað eftir aðstoð við að komast til Bangkok. Reynt verði að verða við því næstu daga. Alls hafa nær tuttugu milljónir verið áhafnað Rauða krossinum til hjálparstarfa í Asíu. Auk fimm milljóna framlags stjórnvalda veitti Pokasjóður verslunarmanna sömu upphæð. Um átta milljónir hafa safnast frá almenningi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×