Innlent

54 Kínverjar á Kárahnjúka

Stjórnvöld hafa ákveðið að veita Impregilo atvinnuleyfi fyrir 54 kínverska verkamenn til starfa við Kárahnjúka. Alþýðusamband Íslands telur lög brotin og segir að tekin hafi verið ákvörðun sem eigi sér engin fordæmi á íslenskum vinnumarkaði. ASÍ hefur óskað eftir fundi með félagsmálaráðherra um málið. Impregilo óskaði fyrr í mánuðinum eftir atvinnuleyfum fyrir allt að 150 Kínverja. Alþýðusamband Íslands lagðist gegn því að leyfin yrðu veitt sökum þess meðal annars að störfin hefðu ekki verið auglýst hérlendis og að ekki hefði verið leitað eftir starfsmönnum frá öðrum ríkjum evrópska efnahagssvæðisins. Í dag upplýsti Útlendingastofnun að leyfin væru að fara þar í gegn. Georg Lárusson, forstjóri Útlendingastofnunar, segir að Impregilo hafi verið beðið um að forgangsraða umsóknunum því mikil vinna sé þessu samfara. Þeir hafi í kjölfarið valið út 54 menn sem vinnumálastofnun hafi samþykkt að veita atvinnuleyfi og umsóknirnar verði því afgreiddar frá Útlendingastofnun í síðasta lagi á morgun. Georg gerir ráð fyrir að Kínverjarnir komi til landsins á allra næstu dögum. Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, segir sambandið fyrst og fremst líta á þetta sem pólitískt mál. Þarna sé verið að taka ákvarðanir sem eigi sér engin fordæmi á íslenskum vinnumarkaði og verið að veita fyrirtæki, sem af fari sérstakt orð vegna framgöngu þeirra hér á landi undanfarna mánuði og misseri, flýtimeðferð sem Halldór kveðst ekki vita til að áður hafi verið veitt á Íslandi, hvorki innlendu né erlendu fyrirtæki.  Halldór segir að ASÍ hafi óskað eftir fundi með félagsmálaráðherra til að fá að vita hver stefna stjórnvalda sé í þessu máli því í grunninn sé það pólitískt. Hann segir að allar þær starfsreglur sem mótaðar hafi verið í þessum efnum hafi verið beygðar og lög væntanlega brotin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×