Innlent

Lyfjaframleiðsla á Grenivík

Lyfjaframleiðsla er að hefjast á Grenivík við Eyjafjörð og verða lyfin framleidd eftir uppskriftum íslenskra apóteka. Það var bæði rétt og ekki rétt, sem sagt var frá í kvöldfréttum í gærkvöldi, að Völvunni hefði orðið á þegar hún spáði fyrir þetta ár að lyfjaverksmiðja yrði sett á fót á landsbyggðinni. Hið rétta er að haustið 2002 var á Grenivík stofnað undirbúningsfélag til lyfjaframleiðslu en það var ekki fyrr en á Þorláksmessu að framleiðsluleyfi fékkst. Verksmiðjan er tilbúin og er framleiðslan að fara í gang. Þar verða framleidd lyf sem áður voru framleidd í apótekum, sem ekki hafa lengur framleiðsluleyfi vegna ófullnægjandi aðstöðu miðað við nútímakröfur. Að sögn Jónínu Freydísar Jóhannesdóttur, framkvæmdastjóra lyfjafyrirtækisins og lyfjafræðings, er framleitt eftir uppskriftum apótekanna og munu þau selja lyfin. Í fyrstu munu fimm til sex manns fá atvinnu við framleiðsluna sem munar um í fámennu sveitarfélagi eins og Grenivík. Sveitarfélagið hefur lagt sitt af mörkum til að gera verksmiðjuhúsnæðið fullnægjandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×