Erlent

200 Svíar taldir af

Allt að 200 Svíar eru taldir vera meðal þeirra sem fórust á Taílandi. Fjöldi Norðurlandabúa var á ferðamannasvæðum þar sem nánast enginn hefur fundist á lífi. Sjónarvottar segja þúsundir ferðamanna hafa farist.  Sænskur sendierindreki á Taílandi sagði fjölda Svía vera saknað. Sænskir fjölmiðlar segja óttast um líf allt að tvöhundruð, þar af um þrjátíu barna. Ekki er vitað hvar um sextán hundruð Svíar, sem voru í fríi á hamfarasvæðinu, eru niður komnir. Þrettán Norðmenn eru látnir svo vitað sé, tíu Svíar og tveir Danir. Aðeins hefur tekist að bera kennsl á hundrað og tólf útlendinga af þeim sem fundist hafa látnir á Taílandi. Fjöldi erlendra ferðamanna er sagður hafa farist í hamförunum, ekki síst á Taílandi þar sem mikill fjöldi Evrópubúa var í sólarlandaferð. Ekki færri en sjöhundruð útlendingar eru taldir þar af. Í ferðamannabænum Khao Lak á Phuket-eyju hefur Reuters-fréttaþjónustan eftir hóteleiganda að um 5000 ferðamenn hafi verið þar, einkum Þjóðverjar og Norðurlandabúar, og hann telur að meirihluti þeirra hafi farist. Af 300 gestum á hótelinu hans hafa aðeins fundist lík hundrað. Blaðamenn hins sænska Aftonbladet segja Khao Lak líkjast helvíti á jörðu. Pálmatré, bílar, hús og bátar af ströndinni hafi þeyst mörgu hundruð metra inn í land og allt annað hafi verið flatt út.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×