Innlent

Óljóst um ferðir sextán Íslendinga

Tveir Íslendingar höfðu samband við neyðarvakt utanríkisráðuneytisins í nótt og létu vita af ferðum sínum í Taílandi. Nú er aðeins óljóst um ferðir sextán Íslendinga sem að líkindum eru á hamfarasvæðunum. Þeim hefur því fækkað verulega frá þeim 55 sem ekki var vitað af fyrst eftir hamfarirnar. Að mati utanríkisráðuneytisins, sem grafist hefur fyrir um afdrif Íslendinga á svæðinu, eru flestir þeirra sem ekki hefur náðst til að öllum líkindum á tiltölulega hættulitlum svæðum. Danska utanríkisráðuneytið hefur grennslast fyrir um afdrif Íslendinga í gengum danska sendiráðið í Taílandi og ræðismenn Íslands vítt og breitt um svæðið hafa spurst fyrir um Íslendinga. Enginn Íslendingur af erlendu bergi brotinn, sem hugsanlega er að leita að skyldmennum sínum á hamfarasvæðunum, mætti á upplýsingafund sem Rauði krossinn ætlaði að halda í gærkvöldi. Þeim er eftir sem áður bent á að hafa samband við Rauða krossinn hér í síma 1717 ef þeir óska upplýsinga af hamfarasvæðunum. Talið er að um tólf hundruð manns hér á landi eigi ættingja þar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×