Innlent

Inflúensan færist í aukana

Þrjú inflúensutilfellið af A stofni höfðu greinst með vissu á landinu í gær, samkvæmt upplýsingum frá landlæknisembættinu. Því má búast við að inflúensan færist í aukana á næstu vikum. Helstu einkenni flensunnar sem farin er að ganga hér eru hár hiti sem byrjar skyndilega, höfuðverkur og beinverkir, hósti, hæsi, nefrennsli og hálssærindi, kviðverkir og uppköst sem einkum eru áberandi hjá börnum. Sjúklingum með inflúensu er ráðlagt að halda kyrru fyrir heima, hvíla sig vel og drekka vökva ríkulega. Hitalækkandi lyf eru árangursrík til að lækka hitann og lina óþægindi en börn ættu ekki að neyta aspirínlyfja, magnýls, vegna hættu á svokölluðu Reye-heilkenni. Reye-heilkenni er sjaldgæfur en alvarlegur sjúkdómur í lifur og miðtaugakerfi sem einkum hefur verið lýst hjá einstaklingum með inflúensu og hlaupabólu sem neyta aspirínlyfja. Á markaði eru til lyf gegn veirunni sem eru árangursrík einkum ef þau eru notuð á fyrstu tveimur dögum veikindanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×