Erlent

Hátt í 7000 hafa látist

Að minnsta kosti 6600 manns hafa farist í suðurhluta Asíu eftir hinn gríðarstóra jarðskjálfta sem gekk þar yfir í morgun, að sögn Sky-fréttastofunnar. Skjálftinn, sem varð um klukkan átta í morgun er sá öflugasti sem orðið hefur vart á jörðinni í fjörutíu ár og sá fimmti öflugasti síðan árið 1900. Upptök skjálftans, sem mældist 8,9 á Richter, voru nálægt eyjunni Sumatra á Indónesíu. Hann varð neðan sjávar og minnst sex eftirskjálftar urðu í kjölfarið, þar af einn sem mældist yfir sjö á richter. Á eftir fylgdu gríðarlegar flóðbylgjur, sem líklega náðu yfir tíu metra hæð. Flóðbylgjurnar hafa skollið á ströndum Indlands, Indónesíu og Sri Lanka í morgun og valdið þar gríðarlegri eyðileggingu. Tölur af mannfalli eru misvísandi og það eitt er öruggt að þær eiga eftir að hækka. Þó er vitað að vel á fjórða þúsund manns hafa fallið í valinn. Verst er ástandið á Sri Lanka, þar sem flóðbylgjur skullu eftir endilangri strandlengju landsins. Þar hafa að minnsta kosti 2500 manns látist í kjölfar skjálftans. Ljóst er að líf meira en milljón manna hefur færst úr skorðum vegna áhrifa skjálftans á Sri Lanka, þar sem um tuttugu milljónir manna búa. Á Indlandi hafa yfir 1600 manns látist og á Indónesíu hafa meira en 1500 fallið í valinn. Þá er mörg hundruð sjómanna frá löndunum tveim saknað í kjölfar skjálftans. Á Thailandi hafa yfir tvö hundruð manns látist og meira en þúsund eru slasaðir. Þá hafa meira en tíu þúsund manns verið fluttir frá suðurhluta Thailands, vegna hættu á frekari flóðbylgjum á svæðinu. Í Malasíu er hundruða manna saknað og staðfest er að um tuttugu hafa látist. Á Maldaví-eyjum, sem eru suðvestur af Sri Lanka, eru tveir þriðju höfuðborgarinnar undir vatni en þaðan hafa ekki borist fregnir af mannfalli. Þegar hefur verið lýst yfir neyðarástandi í löndunum sem orðið hafa fyrir flóðbylgjunum og óskað eftir hjálp alþjóðasamfélagsins. Þar sem fjarskiptin eru víða slæm og flugvellir ónothæfir vegna gríðarlegs vatnselgs, er hins vegar óttast að framkvæmd hjálparstarfs verði með erfiðara móti. Í mörgum löndum er söfnun vegna þeirra sem beðið hafa skaða vegna hörmunganna þegar hafin. Frá Páfagarði hefur borist beiðni til alþjóðasamfélagsins um að bregðast við hörmungunum. Jóhannes Páll Páfi annar, segir að fréttirnar frá Asíu varpi skugga á hátíðarhöld vegna jólanna um allan heim og hvetur hann alla þá sem vettlingi geta valdið til þess að leggja sitt lóð á vogarskálarnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×