Lífið

Bjargar mörgum frá innlögn

Fjárframlag til samstarfsverkefnis Fjölmenntar og Geðhjálpar fyrir næsta ár er loks í höfn. Á ýmsu hefur gengið með verkefnið síðustu misserin. Síðla sumars leit út fyrir að á annað hundrað manns myndu ekki geta hafið nám í húsnæði Geðhjálpar í haust eins og þeir höfðu sótt um, þar sem engin vissa fékkst um fjármuni til kennslunnar. Öllu starfsfólki verkefnisins hafði verið sagt upp í vor og fólkið sem hafði sótt um nám í hinum ýmsu greinum beið í óvissu. Þegar allt virtist komið í óefni bárust þær fréttir frá fjárveitingavaldinu að námið á haustönn yrði tryggt. Enn syrti í álinn þegar leið nær jólum því enn vantaði fjármuni til næsta árs. Vonin þvarr eftir því sem dagarnir liðu og menn kvöddust í fullkominni óvissu um framhaldið við haustannarlok. "En svo fengum við fregnir um fjárframlag og að reksturinn yrði tryggður á næsta ári í samræmi við þarfir," sagði Sveinn Magnússon framkvæmdastjóri Geðhjálpar sem sagði um 100 manns hafa sótt um nám á vorönn. "Það er engin spurning að þetta nám hreinlega bjargar mörgum frá innlögn á sjúkarhús," sagði hann enn fremur. "Það eru allir sammála um mikilvægi þessa náms og nú vonum við, öll sem eitt, að baráttunni fyrir tilveru þess sé endanlega lokið og að það verði tryggt í sessi til framtíðar. Það græða allir á því."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.