Lífið

Enn deilt um uppgjör Opinberunar

Ágreiningur er uppi um hlutverk og skyldur Kvikmyndamiðstöðvar vegna uppgjörs á kvikmynd Hrafns Gunnlaugssonar, Opinberun Hannesar. Félag kvikmyndagerðarmanna beindi því fyrir um það bil ári til þáverandi Kvikmyndastofnunar, sem síðar varð Kvikmyndamiðstöð, að kallað yrði eftir greinargerð um notkun opinberra fjármuna í myndina. Forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar segir það ekki verða gert. "Í þessu tilviki voru grunsemdir uppi um að ekki hefði verið vel með fé farið," sagði formaður félagsins, Björn Br. Björnsson. "Í ljósi þeirra ásakana sem komu frá einstaklingum ályktuðum við og hvöttum Kvikmyndastofnun til að fara yfir bókhaldið á þessu máli til að hreinsa það upp, þannig að menn lægju ekki undir grun um að hafa fengið miklu meira fé til einhvers verks en það kostaði." Opinberun Hannesar vakti mikla athygli á sínum tíma þegar myndinni var neitað um styrk hjá Kvikmyndasjóði. Þorfinnur Ómarsson, forstöðumaður þáverandi Kvikmyndastofnunar, setti sig upp á móti styrknum, sætti rannsókn Ríkisendurskoðunar og varð skömmu síðar að hætta þegar menntamálaráðherra vísaði honum tímabundið úr starfi. Lögfræðinganefnd komst að þeirri niðurstöðu að brottvikningin hefði verið ólögmæt og Þorfinnur fékk starfið tímabundið aftur eða þar til embætti hans var lagt niður. Á seinustu dögum sínum í starfi ákvað hann að veita mynd Hrafns styrk upp á 22 milljónir króna. Menntamálaráðherra óskaði eftir því að Ríkisendurskoðun færi yfir málið. Niðurstaðan varð sú að Þorfinni hefði verið óheimilt að styrkja myndina án leyfis ráðherra. Sjónvarpið keypti síðan sýningarrétt á henni fyrir tíu milljónir. "Þessi úthlutun kom til áður en Kvikmyndamiðstöð varð til úr Kvikmyndastofnun," sagði Laufey Guðjónsdóttir forstöðumaður stöðvarinnar. "Þetta var algjörlega á milli kerfa og fram hjá þeim. Hrafn sagði á opinberum vettvangi, að hann myndi skila inn uppgjöri, en meira hefur ekki gerst, svo ég viti." "Við getum ekki gert neitt í þessu," sagði Laufey. "Eins og ég les samninginn sem Þorfinnur gerði við Hrafn, þá getur hann komist hjá því að skila uppgjöri til okkar." "Kvikmyndamiðstöð getur ekki þvegið hendur sínar af þessu," sagði Björn. "Ég veit ekki betur heldur en að hún hafi tekið við að fylgja eftir öllum málum Kvikmyndastofnunar. Ég geri ráð fyrir að stjórn okkar félags muni ræða þetta mál."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.