Erlent

24 féllu í Nepal

Að minnsta kosti tuttugu og fjórir eru sagðir hafa fallið í bardögum nepalska hersins og skæruliða úr röðum maóista í Nepal í dag. 22 hinna látnu voru skæruliðar. Átökin áttu sér stað í Arghakhanchi-héraðinu, u.þ.b. 350 kílómetra vestur af höfuðborginni Katmandú, í kjölfar þess að skæruliðarnir réðust að flokki hermanna sem áttu leið þar um að sögn yfirmanns innan hersins. Yfir hundrað manns hafa þar með látist í átökum deiluaðilanna síðastliðna viku. Forsætisráðherra Nepals, Sher Bahadur Deuba, gaf uppreisnarmönnum á dögunum frest til 13. janúar næstkomandi til að leggja niður vopn og taka þátt í friðarviðræðum en svo virðist sem það hafi heldur orðið til þess að kapp hafi færst í uppreisnina. Uppreisnarmennirnir vilja steypa konungsfjölskyldunni í Nepal og stofna kommúnistaríki.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×