Spuni á fimmtudagskvöldum á REX

Gítarleikarinn Börkur Birgisson úr Jagúar og plötuspilarinn Margeir spinna saman sjóðheitt sett fyrir gesti Rex annað kvöld, þorláksmessukvöld. DJ Margeir er í forsvari spunakvöldanna, sem felast í spilamennsku hans og annarra fyrsta flokks plötusnúða í takt við lifandi tóna framúrskarandi hljóðfæraleikara sem spinna með þeim af lífi og sál. Þessir tónlistarmenn eru til að mynda hammond leikarinn Sigurður Guðmundsson úr Reggae hljómsveitinni Hjálmum, Árni Heiðar Karlsson og Davíð Þór Jónsson píanósnillingar, básúnublístrarinn og söngfuglinn Samúel J. Samúelsson úr Jagúar og Jóel Pálsson og Óskar Guðjónsson saxafónséní. Þetta er þó bara brot af þeim listamönnum sem munu spila á Spuna og því má segja að ekkert kvöldanna verði eins. Einnig verða ungir og upprennandi tónlistarmenn velkomnir í Spunahópinn og mega þeir endilega láta heyra í sér! Það sem gerir þessi Spunakvöld spennandi er samspil plötusnúðarins og hljóðfæraleikarans sem er algjörlega óæft og ræður tilfinningin ein ríkjum hverju sinni. Í sumum tilfellum munu þeir ekki einu sinni hafa hist áður og kynnast því einungis í gegnum lögin, sem gerir þetta að spennandi spuna einstaklinga með ólíkan tónlistarbakgrunn en sameinast í tónlistinni. Því er hér ekki um æft tónleikaprógram að ræða, heldur óvenjulega tónlistarviðburði með óvæntum uppákomum sem enginn má missa af. Kvöld þessi eru í ætt við hin vel sóttu og vinsælu "Groove Improve" kvöld sem haldin voru öll fimmtudagskvöld, á sama stað, á tæplega tveggja ára tímabili fyrir nokkrum árum. Þau ólu af sér tvo geisladiska sem lifa enn góðu lífi. Var tími til kominn að endurvekja þessa frábæru stemningu en fyrsta Spunakvöldið var haldið fimmtudagskvöldið 25. nóvember síðastliðinn þegar Margeir og Jóel Pálsson saxafónleikari með meiru riðu á vaðið og spunnu saman töfrandi tóna við mikla hrifningu viðstaddra. Það má því búast við sjóðandi heitri og spennandi stemningu á Spunakvöldunum á öllum fimmtudögum í vetur á glæsistaðnum Rex við Austurstræti. Herlegheitin hefjast upp úr klukkan 22 og er aðgangur ókeypis.