Lífið

Flugeldasýning í minningu Ragnars

Feðgarnir Örn og Einar Páll Kjærnested og fjölskyldur þeirra leggja út fyrir flugeldasýningu í Mosfellsbæ um áramótin. Peningana leggja þeir fram til minningar um Ragnar Björnsson, sem lést eftir að á hann var ráðist á sveitakránni Ásláki í Mosfellsbæ fyrr í mánuðinum. Ingvar Þór Stefánsson, formaður Björgunarsveitarinnar Kyndils í Mosfellsbæ, segir að sökum peningaskorts hafi verið útlit fyrir að ekki gæti orðið af flugeldasýningu í bænum þetta árið. "Þetta heyrðu góðir menn í bæjarfélaginu og buðust til að leggja fram peningana í minningu Ragnars," sagði Ingvar Þór, en vildi ekki gefa upp hversu miklu yrði kostað til. "Það höfum við aldrei talað um, en sýningin verður með svipuðu sniði og verið hefur." Ingvar Þór fagnar því að hægt sé að minnast Ragnars með þessum hætti og segir hann hafa verið drifkraftinn í björgunarsveitinni í fjöldamörg ár. "Hann hélt þessu gangandi með öðrum, kom af stað unglingastarfi í Mosfellsbæ og í björgunarsveitinni sem ennþá er í gangi og við njótum enn góðs af því starfi sem hann sinnti fyrir okkur."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.