Lífið

Þræði mig eftir stórvirkjunum

"Þetta eru ákveðin fjölskyldusöguleg tímamót hjá mér," segir Sigurður Gylfi Magnússon sagnfræðingur og vísar til kaupa danska málningarvöruframleiðandans Flugger á Hörpu-Sjöfn. "Fjölskylda mín keypti sig inn í Hörpu-Sjöfn árið 1961 og karl faðir minn stjórnaði því til ársins 1991. Þá tók bróðir minn við af honum en hann lætur af störfum í janúar. Ég man aldrei eftir sjálfum mér öðruvísi en í tengslum við þetta fyrirtæki og rek það meðal annars í bók minni Fortíðardraumar þegar ég stend við borðröndina hjá föður mínum og horfi á hann skrifa bréf. Margt fólk í Hörpu-Sjöfn hefur verið þar í áratugi og aðrir eigendur hafa verið viðloðandi það síðan 1936. Þetta er því sannkallað fjölskyldufyrirtæki og mjög tilfinningaleg tímamót." Sigurður Gylfi er annars að jafna sig eftir lítilsháttar meiðsli og notar tímann til að lesa jólabækurnar. "Ég hef verið að þræða mig eftir stórvirkjunum þessi jól. Ég er ákaflega hrifinn af Vélum tímans eftir Pétur Gunnarsson. Pétur er snjall stílisti en fyrir okkur söguáhugafólk er áhugavert að sjá hvernig hann lítur á fortíðina sem efnivið sem hann mótar, en ekki fasta stærð eins og er algengt hjá þeim sem skrifa sögulegar skáldsögur." Sigurður Gylfi segir að þá marki ævisaga Héðins Valdimarssonar eftir Matthías Viðar Sæmundsson tímamót; uppbygging og frásagnarháttur séu djarfari en menn eigi að venjast. "Mín bíður líka Halldór eftir Halldór Guðmundsson og ég hef heyrt að hún sé afar vel unnin."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.