Lífið

Sveppi verður Kalli á þakinu

Óskar Jónasson leikstjóri vinnur nú að undirbúningi að uppfærslu á Kalla á þakinu í samvinnu við Árna Þór Vigfússon. Sveppi mun fara með hlutverk Kalla og Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir, fyrrum ungfrú Ísland, leikur annað aðalhlutverk í sýningunni. Óskar og Árni Þór eru í viðræðum við Borgarleikhúsið um uppfærslu á sýningunni. Að sögn Guðjóns Pedersen, leikhússtjóra Borgarleikhússins, hefur ekki verið gengið frá samningum en sýningin yrði sett á svið eftir páska. Að sögn Árna er leikgerðin sænsk og unnin eftir samnefndri bók Astrid Lindgren sem kynslóðir Íslendinga hafa lesið sér til skemmtunar. Davíð Þór Jónsson þýddi og staðfærði leikgerðina. Óskar mun leikstýra verkinu og Árni Þór verður framleiðandi sýningarinnar. Árni Þór var framleiðandi söngleiksins Fame sem sýndur var í sumar en þar fóru Sveppi og Ragnhildur einnig með hlutverk. Eins og aðdáendur Kalla á þakinu muna úr bókunum er eitt helsta sérkenni Kalla það að hann getur flogið. Spennandi er að sjá hvernig leikstjórinn mun leysa það verkefni að láta Sveppa fljúga á sviðinu. Sveppi er hins vegar ekki allsendis óvanur því að takast á loft, því eins og margir eflaust muna var honum kastað í dvergakastskeppni sem fram fór síðasta sumar. Það á eftir að koma í ljós hvort reynsla hans af flugi sínu þá muni nýtast honum í hlutverki Kalla á þakinu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.