Lífið

Enginn tími til hátíðahalda

Lúðvík S. Georgsson verkfræðingur er fimmtíu og fimm ára í dag. Lúðvík er aðstoðarskólastjóri Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna. En Lúðvík er líka KR-ingur af lífi og sál. Hann hefur um árabil staðið fyrir flugeldasölu KR og tekur sér frí frá jarðhitaskólanum á meðan. Tímamótin hringdu í Lúðvík. Við byrjuðum á að spyrja um flugeldana. "Ég er búinn að vera í þessu í meira en tuttugu ár. Við flytjum inn flugelda, seljum flestum íþróttafélögum sem eru í þessu í heildsölu og svo seljum við líka sjálfir í KR-heimilinu. Þetta er ein aðalfjáröflunarleið knattspyrnudeildarinnar." Hvaðan koma þessar vítisvélar? "Þetta er mest frá Kína. En líka talsvert frá Þýskalandi. Þeir búa til bestu raketturnar og stjörnublysin." Þetta eru sérkennileg viðskipti. "Já, það má segja það. Þótt selja megi flugelda frá 28. desember til 6. janúar, þá er salan bundin við miklu færri daga. Við flugeldasalar verðum að vera í afar nánu sambandi við máttarvöldin, því aðalsalan er í raun á einum sólarhring, frá því klukkan fjögur 30. og til jafnlengdar á gamlársdag. Og ef það gerir stórhríð þennan sólarhring erum við í vondum málum. Og þótt við megum selja fram á þrettándann, þá er það smáræði nema á þrettándanum sjálfum." Og er þetta svo búið? "Nei, nei, maður er eitthvað að sýsla í þessu allt árið. Fara yfir pantanir, breyta hönnum umbúða og svo eru auðvitað pantanir næsta árs." En svo við víkjum að þínu aðalstarfi. Hefurðu verið lengi við Jarðhitaskólann? "Ég hef nú kennt þar frá upphafi. En ég hef verið aðstoðarskólastjóri í fimmtán ár." Eru einhverjar breytingar á döfinni þar? "Já, á næsta ári munum við fara með námskeið til Kenía. Við höfum notið mikils velvilja ríkisstjórnarinnar og fengið fjárveitingu til þess. Við vonumst til þess að geta farið með þetta námskeið líka til Asíu og Mið-Ameríku en flestir nemendur koma þaðan og frá löndum Austur-Evrópu. Við erum líka búnir að koma á meistaranámi hérna heima, í samvinnu við Háskóla Íslands, sem þeir sem hafa lokið hinu hefðbundna sex mánaða námskeiði geta farið í það og fá þá jarðhitaskólanámskeiðið viðurkennt sem hluta af meistaranáminu." En svo við víkjum að afmælinu. Heldurðu upp á það? "Ekki get ég sagt það. Ég hef ekki haldið upp á nema stórafmæli síðan ég byrjaði í flugeldunum. En það verður kannski eitthvað bakað. Ekki mikið."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.