Lífið

Óhemjuorka í Fríkirkjunni

Það verður mikið um dýrðir í Fríkirkjunni í Reykjavík í dag en þá gengst Sálarrannsóknarfélag Íslands fyrir svonefndri heilunarguðsþjónustu. Að sögn Friðbjargar Óskarsdóttur, eins forsvarsmanna hennar, verður yfirbragð samkomunnar með nokkuð hefðbundnu sniði þar sem á skiptast bænir og gospeltónlist en sr. Hjörtur Magni Jóhannsson þjónar fyrir altari. Vinarþelið mun að venju svífa yfir vötnum þótt ekki verði boðið upp á handayfirlagningar. "Sálin okkar allra er í rauninni eitt í kærleikanum og ef við setjumst saman í hóp og sameinumst í kærleika þá byggjum við upp svo óhemju mikla orku að það verður um heilunarorku að ræða í umhverfinu. Þetta er hópheilun," segir Friðbjörg. Að auki verður sr. Jóns Auðuns, dómprófasts og fyrrverandi forseta Sálarrannsóknarfélagsins minnst, en hann hefði orðið hundrað ára í febrúar næstkomandi. Heilunarguðsþjónustan hefst klukkan fimm en á síðasta ári var mætingin svo góð að fólk þurfti frá að hverfa. Því er gott að mæta tímanlega.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.