Lífið

Galdrastund með Skátum

Í Fókus, sem fylgir DV í dag, er hægt að finna allt sem er að gerast í skemmtana-, tónlistar og bíóheimum helgarinnar. Smekkleysa plötubúð, sem er staðsett á laugaveginum fyrir neðan Bónus, hefur heldur betur slegið síðan hún hóf starfsemi í október. Tónleikar hafa verið haldnir alla föstudaga og laugardaga síðan þá og þessa helgina verður bætt um betur því einnig verða tónleikar á sunnudaginn. Það verður rafmögnuð stemning kl. 17 í dag þegar rafgúrúin í Ampop sem er nýkomin heim frá Bretlandi leikur fyrir viðstadda. Sveitin er að ljúka upptökum á sinni þriðju breiðskífu sem verður gefin út á alþjóðamarkaði. Tvær rokksveitir munu svo leika í Smekkleysu plötubúð á morgun. Annars vegar hljómsveitin Bacon sem inniheldur meðlimi sveita á borð við 13, SS Span, Sororicide, Silverdrome og Stjörnukisa. Með þeim verða Skátar sem eru einmitt að senda frá sér sína fyrstu plötu, Heimsfriður í Chile: Hverju má breyta, bæta við og laga. Skátar hefur verið að gera það gott með spilamennsku sinni í Reykjavík síðasta árið og fengu þeir m.a. mjög góða dóma í erlendu pressunni á Airwaves. Meðlimir Skáta hafa áður skipað hljómsveitir eins og Graveslime, Sofandi og Kusa þannig að menn þar á bæ vita vel hvað þeir eru að gera. Sveitirnar halda tvenna tónleika á morgun, fyrst kl. 15 og aftur kl. 20. Það er svo Galdrastund á sunnudaginn því þá mætir Dj Gísli Galdur á svæðið ásamt sérstökum gestum. Galdurinn þarf varla að kynna fyrir nokkrum manni en hann er t.d. núverandi meðlimur í sveitunum Ghostigital, Trabant og Quarashi til að nefna nokkrar. Galdurinn mun spila kl. 16 og svo aftur kl. 20 fyrir þá sem nenna ekki að drulla sér fram úr fyrr en eftir kvöldmat. Óþarfi er að taka fram að ókeypis er inn á allt draslið.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.