Lífið

Pilsklæddar en spila ekki popp

Á forsíðu Fókus, sem fylgir DV í dag, eru tvær plötusnúðagellur, Ellen og Erna. Fókus barst til eyrna að þær væru að gera allt það gott sem plötusnúðar á Vegamótum og víðar. Stelpur sem eru plötusnúðar eru ekki á hverju strái þannig að forvitnin fékk að ráða og málið var kannað aðeins betur. Hafnfirðingarnir Ellen Loftsdóttir og Erna Bergmann eru bestu vinkonur. Ellen vinnur í Smash og Erna vinnur í Spúútnik auk þess sem hún kennir dans annað slagið. Þær eru búnar að vera vinkonur lengi. Og að eigin sögn eru þær alveg samfastar og hugsa oft það sama. "Oft þegar við erum að spila og ég spyr Ellen hvaða lag hún sé að fara að spila þá kannski held ég á sama lagi og hún ætlaði að setja á og er sjálf að fara að spila það," segir Erna og hlær. "...kýldum bara á þetta." "Við byrjuðum bara að spila í vor á þessu ári. Við erum duglegar að hlusta á tónlist og pæla í henni. Okkur hefur langað til að verða plötusnúðar frá því við vorum unglingar og kýldum bara á þetta og byrjuðum á því að spila á framhaldsskólaballi. Við klíndum okkur á strákana sem voru að fara að spila og hættum ekki fyrr en við fengum að vera með." Þær segjast hlæjandi vera mjög ákveðnar og ef þær ætli sér að gera eitthvað þá geri þær það. "...fólk horfði bara á okkur eins og við værum eitthvað djók." "Vinir okkar frá ballinu sögðu Dóru Takefusa sem var þá með Bar Pravda frá okkur og henni leist vel á. Þetta var mjög skrautlegt fyrst af því við kunnum ekkert að stilla hljóðið og vorum alveg að æra fólk. Á meðan við vorum kannski að dansa á fullu að fíla okkur í tætlur horfði fólk bara á okkur eins og við værum eitthvað djók." Vinir þeirra kenndu þeim svo smám saman á græjurnar. "Svo fórum við yfir á Vegamót. Fyrst vorum við með Dóra plötusnúði, sem var mikið að spila þar þá. Það gekk mjög vel þannig að við fórum að spila oftar." Stelpurnar spila líka á Prikinu. Þær hringdu í eigandann sem var tregur til þar sem hann hafði aldrei heyrt í þeim. "Við hringdum þá bara í plötusnúðinn sem var þá um helgina og klíndum okkur á hann og fengum að spila með honum." Aftur hlæja þær vinkonur dátt og hafa greinilega húmor fyrir sjálfum sér. Afganginn af viðtalinu við stelpurnar má finna í Fókus, sem fylgir DV í dag.Þar er einnig að finna ítarlega úttekt á hinni svölu Ocean´s Twelve og lesendum blaðsins er boðið á myndina. Þá fór Fókus á bifreiðaverkstæði og í tískubúð til að komast að því hverjar væru bestu bækur og plötur ársins. Tekið er viðtal við íslenskan færeying sem gefur út fjórar plötur með sjálfum sér fyrir jólin og tónlistarmanninn Stranger, sem þykir ein bjartasta vonin í tónlistarlífinu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.