Erlent

Tyrkir láta ESB bíða

Tyrkir ætla að láta ráðamenn innan Evrópusambandsins bíða eftir svari við því hvort að Tyrkir gangist inn á þá skilmála sem settir voru fyrir aðildarviðræðum sem til stendur að hefjist í október á næsta ári. Tyrkir vilja ganga í sambandið en höfðu lýst því yfir að þeir gætu ekki sætt sig við ýmis skilyrði sem rædd voru þar sem þau væru ósanngjörn og niðurlægjandi. Evrópusambandið bauð í gær tyrkneskum stjórnvöldum til aðildarviðræðna en setti það skilyrði að Tyrkjar viðurkenndu fyrst Kýpur - þ.e., stjórnvöld á gríska hluta eyjarinnar sem Tyrkjum hugnast lítt. Króötum var í morgun einnig boðið að ganga til viðræðna við Evrópusambandið um aðild. Viðræðurnar eiga að hefjast í apríl á næsta ári, að því tilskildu að Króatar starfi með stríðsglæpadómstólnum í Haag. Búlgaríu og Rúmeníu verður einnig boðið til viðræðna með það að markmiði að löndin gangi í sambandið árið 2007.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×