Innlent

Ekki verið að brjóta lög

Evrópsk lög banna verslun með líffæri og vefi. Forsvarsmenn tæknifrjóvgunarstofunnar Art Medica sem tekið hafa upp á þeirri nýbreytni að greiða konum fyrir egg, eru þess þó fullvissir að þeir brjóti ekki lög. Ísland er aðili að svökölluðum Óvíedó sáttmála frá árinu 1997, um vernd mannréttinda og mannlegrar reisnar. Þar er kveðið á um að óheimilt sé að hafa fjárhagslegan ávinning af mannslíkamanum og hlutum hans sem slíkum og lagt er bann við verslun með líffæri og vefi, eins og með egg sem notuð eru til tæknifrjóvgana. Bætur til líffæragjafa vegna tekjutaps og annarra útgjalds eru þó heimilar og það segja forsvarmenn Art Medica að sé einmitt tilgangurinn með þeim greiðslum sem þeir hafa nú milligöngu um. Eðlilegt sé að þær konur sem af fórnfýsi leggi þetta á sig þurfi ekki sjálfar að leggja út í kostnað. Samkvæmt heimildum fréttastofu fer sú upphæð sem konum er greitt fyrir að láta nema egg úr líkama sínum, ekki yfir 100 þúsund krónur. Þórður Óskarsson læknir hjá Art Medica segir þó nokkuð um að konur hafi hringt á stöðina í dag til að spyrjast fyrir um hvað þurfi til að verða eggjagjafi. Aðspurður hvort slíkar greiðslur kalli ekki á það að óæskilegir eggjagjafar nýti sér slíkt til að afla tekna sagði hann ekki verði tekið við hverri sem er. Art Medica muni fara fram á leyfi frá gjafanum til að ræða við fólk sem er honum kunnugt og einnig yfirvöld sem gætu haft með viðkomandi að gera. Fái þeir ekki heimild til slíkrar eftirgrennslan muni gjafinn ekki vera notaður. Eins og fram hefur komið hefur verið erfiðleikum bundið að fá gjafaegg hér á landi, en verði viðbrögð við útspili Art Medica góð gætu nýir möguleikar opnast barnlausum pörum, eins og sá að fá ákveðnar kröfur uppfylltar, eins og um háralit eggjagjafans og jafnvel áhugamál. Þórður segir enga ástæðu til að neita fólki um slíkt, ef hægt sé að koma til móts við slíkar kröfur, en miðað við hve erfiðlega hafi gengið að fá egg er ekki líklegt að það verði í bráð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×