Innlent

Miltisbrandseitrun kortlögð

Stefnt er að því að kortleggja þá staði á landinu þar sem grunur leikur á að miltisbrandseitrun sé í jörðu. Dæmi eru um að jarðaeigendur óttist að eignir þeirra falli í verði, ef þær rata inn á þann lista eða séu í nágrenni við slík svæði. Embætti yfirdýralæknis hefur kallað eftir upplýsingum eða sögum um militsbrandstilfelli en ætlunin er að kortleggja smitsvæði. Vitað er um sextíu staði þar sem staðfest er að miltisbrandur leynist í jörðu og á þriðja tug ábendinga hafa borist til embættisins á síðustu dögum, eða eftir að miltisbrandseitrun kom upp á Vatnsleysuströnd. Fréttastofunni er þó kunnugt um afar mismunandi skoðanir á slíkri kortlagningu. Dæmi eru um að jarðeigendur hafi jafnvel álasað nágrönnum sínum fyrir að tilkynna um miltisbrandsdys í landi þeirra, af ótta við að nágrannajarðir falli í verði. Jafnvel telja sumir hyggilegast að þegja yfir vitneskju um slíkt í eigin landi. Ljóst er að töluverðir hagsmunir geta verið í húfi. Á síðustu tveimur til þremur árum hefur mikil aukning verið í sölu jarða en svo virðist sem það þyki ekki lengur nóg fyrir höfuðborgarbúa að eiga sumarbústað, heldur vilja menn vera jarðareigndur. Eftirsóttastar eru þær sem skarta fögru umhverfi og eru í nálægð við þéttbýli. Ólíklegt má telja að mitisbrandseitrun rati inn á óskalistann. Líklegra er að taka þurfi sérstaklega fram við sölu á bújörðum í framtíðinni að miltisbrandseitrun gæti leynst í jörðu. Magnús Leópoldsson fasteignasali segir alla hvers konar „fötlun“ á jörð hafa neikvæð áhrif í sölu, hvort sem um er að ræða miltisbrand eða eitthvað annað 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×