Erlent

Enn stríðshrjáð tveimur árum eftir lok bardaga

Vannæring, skortur á heilbrigðisþjónustu og skærur hrjá enn milljónir íbúa Kongó fjórum árum eftir að endir var bundinn á meiriháttar átök í mannskæðasta stríði heims frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Nýleg rannsókn á vegum bandarískra hjálparsamtaka gefur til kynna að enn þá látist þúsund manns daglega af orsökum sem rekja má til stríðsins. International Rescue Committee áætlar að 3,8 milljónir manna hafi farist í Kongó frá árinu 1998. Flestir hinna látnu, um 98 prósent, létust ekki í stríðsátökum heldur af völdum fylgifiska þeirra, hungurs og viðráðanlegra sjúkdóma sem ekki fékkst lækning við. "Á sex árum hefur heimurinn glatað fólksfjölda á við alla íbúa Írlands eða Los Angeles," sagði Rick Brennan, einn af skýrsluhöfundum, þegar hann freistaði þess að setja mannfallið í Kongó í samhengi. Stríðið í Kongó braust út þegar Rúandaher hélt inn í landið árið 1998 til að herja á rúandíska vígamenn sem höfðust við í landinu. Vígamennirnir voru menn sem staðið höfðu fyrir þjóðernishreinsununum í Rúanda 1994 og stóðu enn fyrir árásum inn í Rúanda. Fleiri ríki drógust inn í stríðið í kjölfarið og hefur það af þeim sökum, og vegna hins mikla mannfalls, stundum verið nefnt heimsstyrjöldin í Afríku. Nú óttast margir að átök brjótist út á nýjan leik. Ástæðan er sú sama og fyrir sex árum. Rúandastjórn kvartar undan því að stjórnvöld í Kongó og sveitir á vegum Sameinuðu þjóðanna geri ekki nóg til að brjóta rúandíska vígamenn í Kongó á bak aftur. Rúandískir ráðamenn hóta því að senda herlið til Kongó til að berja vígamenn niður ef ekkert verður að gert og er talið víst að það geti leitt til frekari átaka. Fregnir hafa borist af því að Rúandaher sé þegar kominn til Kongó, þessu hafa erlendir sendimenn haldið fram og eftirlitssveitir Sameinuðu þjóðanna staðfest. Þessu hafna þó stjórnvöld í Kigali, höfuðborg Rúanda, og kalla óhróður Kongóstjórnar og Sameinuðu þjóðanna. Hvort tveggja bresk og bandarísk stjórnvöld hafa lýst áhyggjum af yfirlýsingum Rúandamanna og segja það hættulega þróun ef Rúandaher heldur inn í Kongó.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×