Erlent

Átök vaxa í aðdraganda kosninga

Andspyrnumenn í Írak stóðu fyrir fjölda tilræða síðastliðin sólarhring, og réðust meðal annars inn á lögreglustöðvar víðs vegar um landið. Átök vaxandi í landinu eftir því sem nær dregur kosningum. Kosningar á að halda þann 30. janúar, og fer ástandið versnandi dag frá degi. Bandarískir hermenn í Írak verða að meðaltali fyrir um áttatíu árásum á degi hverjum, sem er mun meira en fyrir aðeins örfáum mánuðum. Þá fer mannránum einnig fjölgandi. Herskáir Súnní múslimar hafa hótað því að koma í veg fyrir að hægt verði að kjósa, og efast margir um kosningar geti verið óhlutdrægar við núverandi kringumstæður. Andspyrnumenn í Bagdad í Írak réðust í morgun að öryggissveitum og inn á lögreglustöðvar á nokkkrum stöðum í landinu. Að minnsta kosti fimm eru látnir og mun fleiri eru særðir. Þá gerðu þeir árás á starfsmenn menntamálaráðuneytisins, þar sem þeir sátu í rútu. Fimm særðust. Á fleiri stöðum í landinu létu andspyrnumenn til sína taka. Þingið sem verður kosið í lok janúar, situr aðeins tímabundið. Helsta verkefnið er að skipa nýja ríkisstjórn og samþykkja nýja stjórnarskrá. Þegar hafa alls 122 stjórnmálaflokkar skráð framboð fyrir kosningarnar og herferð stendur yfir til að fá íraskan almenning til að skrá sig til kosningaþátttöku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×