Innlent

200 milljónum meira

Til greina kemur að breyta skattlagningu nýbygginga þannig að fasteignagjöld yrðu ákvörðuð oftar en um áramót eins og nú er gert. Talið er að sveitarfélögin geti aukið tekjur sínar um 150 til 200 milljónir á ári með breytingunum. Haukur Ingibergsson, forstjóri Fasteignamats ríkisins, segir dæmi um að menn dragi að skrá byggingar fram yfir áramót og spari þannig skattgreiðslu í nær heilt ár. Uppi séu hugmyndir um að fasteignir verði skattlagðar þegar þær komist á ákveðið byggingarstig hvenær sem er ársins. Haukur segir að Fasteignamatinu sé ekkert að vanbúnaði til að taka upp breytt kerfi en það sé félagsmálaráðherra að taka ákvörðun um hvort það verði gert. Sveitarfélög nota fasteignaskrá sem gefin er út um áramót til að meta álagningu fasteignagjalda. Gunnar Svavarsson, forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, segir mikilvægt að breyta þessu til að jafnræði skapist á milli íbúa auk þess sem sveitarfélögin verði af umtalsverðum tekjum ár hvert með núverandi fyrirkomulagi. Hann telur að skattgreiðslur geti munað tugum þúsunda milli heimila eftir því hvort þau séu metin fyrir áramót eða eftir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×