Innlent

Ingibjörg var einfaldlega hæfust

Reynsla sem hæstaréttarlögmaður, stjórnandi lögmannsskrifstofu og borgarfulltrúi er það sem gerir Ingibjörgu Rafnar hæfa til að gegna embætti umboðsmanns barna, að mati forsætisráðherra. Skipun Ingibjargar Rafnar í embætti umboðsmanns barna frá áramótum hefur vakið nokkuð hörð viðbrögð annarra umsækjenda um embættið, sem undrast að í forsætisráðuneytinu hafi mönnum nægt þrír dagar til að fara yfir allar umsóknirnar, en alls bárust sextán umsóknir. enginn umsækjenda var boðaður í viðtal. Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, telur ferlið þó allt í besta lagi og telur Ingibjörgu hæfasta umsækjandann. Hann segir ekkert óeðlilegt við framkvæmdina. Lögð sé áhersla á lögfræðimenntun, þó að það hafi ekki verið skilyrði og Ingibjörg hafi ein umsækjenda réttindi hæstaréttarlögmanns, auk þess að hafa mikla reynslu á sviðinu. Hún sé afburðahæf til þess að gegna starfinu. Reynsla hennar á mörgum sviðum hafi ráðið því að hún hafi hlotið starfið. Þannig hafi hún bæði starfað sem lögfræðingur, sjálfstætt starfandi með börnum og í borgarstjórn. Halldór segir tímann sem ferlið tók ekki hafa verið of stuttan, enda kvarti fólk oft yfir því að ráðuneytið sé of lengi að taka ákvarðanir. Hann segir að það hafi strax legið nokkuð ljóst fyrir að Ingibjörg væri hæfust í starfið og allir hafi verið sammála um það innan ráðuneytisins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×