Lífið

Endurfundir hafa bjargað hjónaböndum og mannslífum

Ég elska þig svo mikið að ég gæti næstum dáið. Þessi setning hefur öðlast eilíft líf. Ástarjátningin er heitari og innilegri en flestar aðrar sem sungnar hafa verið. Árið sem lagið Endurfundir kom út í flutningi Upplyftingar var það ávallt síðasta lagið sem leikið var á böllum. Við það vönguðu elskendur og rauluðu textann í hálfum hljóðum í eyru hvor annars. Gengu svo saman út í nóttina, enn með lagið á vörunum. Löngu eftir að það kom út var það enn mest umbeðna óskalagið í Ríkisútvarpinu. Og á þeim bænum var ekkert lag leikið eins oft og Endurfundir árið 1981. Höfundurinn er Sigfús E. Arnþórsson, Þingeyingur sem nú býr í Lundúnum og selur þar píanó og flygla við góðan orðstír. Hann rifjar upp síðvetrardaginn afdrifaríka þegar lagið varð til. "Þetta var eftir hádegi á laugardegi í febrúar eða mars. Ég bjó í kjallaraherbergi í Furugrundinni í Kópavogi og átti í eldheitu en stormasömu ástarsambandi við áhugaleikkonu undan Eyjafjöllum. Í herberginu var tvíbreiður sófi, borð og píanó. Allt og sumt sem svona par þarf. Einnig Nordmende segulband, Yamaha kassagítar sem ég hafði keypt í Kanada og ekta "steel-drum" sem ég hafði vélað útúr innfæddum á Trinidad. Pianóið var gamalt danskt Hornung & Møller sem hefur gengið milli manna í fjölskyldu minni um áratuga skeið. Upprunalega keypt af norskum hvalföngurum á Seyðisfirði. Leikkonan unga lagði svo til svona "girly stuff", púða, kertaljós, reykelsi og þess háttar. Svona eftir á að hyggja er þetta sennilega eins nálægt himnaríki á jörð og hægt er að komast. Svo við getum þá sagt að lagið sé samið í paradís." Hann rifjar líka upp að skjannahvít snjóbreiða var yfir Fossvoginum og Upplyfting með ball í Klúbbnum um kvöldið. "Þeir voru orðnir örvæntingarfullir, höfðu slegið í gegn með Traustum vini og þurftu að fylgja laginu eftir með annarri plötu. Þeir báðu mig um lag en leist ekkert á Dylanísku rokklögin sem ég hafði sent þeim. Spurðu hvort ég gæti ekki samið eitthvað gagnfræðaskólalegt." Varð til á tuttugu mínútumSigfús var til í að skoða málið og lét hugann reika aftur til gaggóáranna. Hann staðnæmdist við lagið Without you með Harry Nilsson en það var upprunalega með Badfinger. "Ég get upplýst það núna að Endurfundir er bein tilvísun í það lag. Og ég er enn undrandi á að í allri umræðunni sem Endurfundir ollu kveikti enginn á því. "I can´t live, if living is without you", er auðvitað Ég elska þig svo mikið að ég gæti næstum dáið. Og úr laglínunni og hljómaganginum í "but I guess that´s just the way the story goes" er auðvelt að beygja inn í Endurfundi á tveim stöðum, bæði inn í "en ég get ei lengur þagað..." og "því ég elska þig svo mikið..."." EndurfundirÉg hef saknað þín svo mikið frá því síðast er ég sá þigog ég þorði ekki að segja hvað bjó í hjarta méren ég get ei lengur þagað er ég horfi svona á þigþví loksins hef ég skilið hvað ástarsæla er því í hvert sinn er ég sé þig er eins og birti yfir ölluþað sem áður var svo venjulegt það breytir allt um svipgráir hversdagslegir dagar sem mig áður kvöldu af leiðaþeir fyllast nýjum ljóma í sérhvert sinn er ég sé þig Ó, vertu alltaf hjá mér þú mátt aldrei fara frá mérég skal vera þér eins góður og ég mögulega getþví ég elska þig svo mikiðað ég gæti næstum dáiðfyrir aðeins þessa einu nótt í faðmi þér Í hvert sinn er ég sé þig er eins og birti yfir ölluþað sem áður var svo venjulegt það breytir allt um svipgráir hversdagslegir dagar sem mig áður kvöldu af leiðaþeir fyllast nýjum ljóma í sérhvert sinn er ég sé þig Sigfús neitar því hins vegar alfarið að lagið sé þá í raun stolið, segir tilvísanir í tónlistinni algengar. "Þetta er aðdáun í formi tilvísunar. Við stöndum öll á annarra öxlum." Hann man enn þegar lagið varð til. Eins og gerst hafi í gær. "Ég færði mig frá píanóinu til að skrifa niður textann. Það lá á að festa þetta á blað því annars yrði allt glatað. Ég skrifaði eins hratt og ég gat. Fyrsta vísan, viðlagið og tvær línur í vísu númer tvö komu auðveldlega. Næstu línur urðu svo til í stúdíóinu og eru annað hvort eftir einhvern í hljómsveitinni eða Jóhann G. Jóhannsson upptökustjóra. Ég færði mig svo yfir að píanóinu, kveikti á segulbandinu og söng og spilaði lagið inn. Allt í allt tók þetta svona tuttugu mínútur. Um kvöldið lét ég svo Upplyftingu hafa lagið, baksviðs í pásu, á fjórðu hæð Klúbbsins við Borgartún." Lagið var enn nafnlaust á þessum tíma. Síðar var afráðið að nefna það Endurfundi og stafar það af því að fyrsta plata Upplyfingar hét Kveðjustund. "Það var þegar ákveðið að önnur platan héti Endurfundir og er lagið því skírt eftir plötunni. Og þar sem fyrsta setning lagsins er "Ég hef saknað þín svo mikið, síðan síðast er ég sá þig", má segja að það sé ásættanlegt." Listaspíraðist með áhugaleikkonunniÞrátt fyrir að vera hreinræktaður Suður-Þingeyingur telur Sigfús sig til Akureyringa. Þar bjó hann lengi og finnst Akureyri vera flottasti bær í heimi og hefur nú víða komið. Segir hann það mat sitt frekar byggt á tilfinningum en vitsmunum. Þrátt fyrir að muna enn vel daginn sem hann samdi Endurfundi man hann minna eftir störfum sínum á þeim tíma. "Það vita sjálfsagt allir sem hafa búið með dramatískum áhugaleikkonum á vissum aldri, að það verður ekki fengist við mikið annað á meðan. Ég gæti hafa verið í hlutastarfi á sjúkrahúsi. Og svo hef ég sjálfsagt verið í einhverri árshátíða- og þorrablótahljómsveit. Og kannski spilaði ég dinnermúsík á einhverju hótelanna eða matsölustaðnum. En aðallega var ég að listaspírast eitthvað með leikkonunni. Í Klúbbnum og á Hótel Borg og Óðali, minnir mig." Sigfús hefur alla sína tíð tengst tónlist með einum eða öðrum hætti og ein hans fyrsta minning nær til barnæskunnar þegar hann spilaði Schubert með bundið fyrir augun. Síðar nam hann klassískan píanóleik og tónlistarsögu við Tónlistarskólann á Akureyri en hallaði sér snemma að popptónlist og lék með hljómsveitum í mörg ár. "Árið 1990 fór ég svo að mjaka mér ofan af sviðinu og stillti mér upp bakvið búðarborð, fyrst sem deildarstjóri Hljómdeildar KEA á Akureyri og síðar í eigin geisladiskabúð, Melódíu, í sama bæ. Á þessum árum sá ég einnig um útvarpsþætti á Hljóðbylgjunni og skrifaði reglulega um stjörnuspeki í Dag. Einnig stýrði ég útihátíðum og stóð fyrir tónleikaferðum erlendra listamanna um Ísland." Árið 1996 gerðist Sigfús dagskrárgerðarmaður við Dægurmálaútvarp Rásar 2 og eflaust muna einhverjir eftir honum þaðan. Þegar þeirri vist lauk fluttist hann til Lundúna þar sem hann hefur fengist við ýmislegt, meðal annars hljóðræna upplýsingamiðlun, markaðsrannsóknir og símsölu. Undanfarið ár hefur hann svo annast innkaup og sölu á Yamaha flyglum og píanóum í tónlistarversluninni Chappell of Bond Street sem er stórmarkaður á sínu sviði og hefur verið til í tæp tvö hundruð ár. Yfirþyrmandi vinsældirSigfús E. Arnþórsson unir hag sínum vel ytra. Hann segir að um leið og Lundúnir hafi marga galla sé hún ómótstæðileg á sinn hátt. "Ekki síst á þessum árstíma, uppljómuð í jólaljósum. Svo eru Lundúnarbúar kurteisir í umferðinni, líkt og Akureyringar. Ég bý í Chelsea, rétt við lestarstöðina South Kensington, uppi á áttundu hæð með útsýni yfir vesturborgina og hef ekki yfir neinu að kvarta." Hann spilar ekki mikið á hljóðfæri þessi dægrin, slær þó nótu og nótu enda innan um hágæðaflygla daginn út og inn. Endurfundir óma sjaldan um verslunina í húsi númer 50 við New Bond Street í heimsborginni en þetta 23 ára gamla lag sem var samið í Furugrundinni í Kópavogi hefur læst sig á ný í hjörtu ungra Íslendinga. Og höfundurinn á aðeins eitt orð til að lýsa vinsældunum í den. "Yfirþyrmandi. Já, Endurfundir var yfirþyrmandi vinsælt lag. "Setningin "Ég elska þig svo mikið..." fékk alls kyns endingar og var notuð alls staðar í daglegu tali. Ég man líka að Leikfélag Reykjavíkur var með fjáröflunarsamkomur í Austurbæjarbíói þar sem leikararnir lásu textann upp sem gullaldarljóð og uppskáru mikinn hlátur. Textinn hefur líka komið fram í öðrum textum, fyrsta setningin í tónverkinu Með allt á hreinu með Stuðmönnum, "Ég er dáinn úr ást, þó hjartað dæli blóði", er greinilega skrifuð til að toppa Endurfundi. Og þetta lag hefur náttúrulega verið sungið við brúðkaup um allt land fram á þennan dag. Fullt af fólki hefur komið til mín í gegnum árin og þakkað mér fyrir að Endurfundir hafi bjargað hjónabandi þess. Jafnvel lífi. Maður fer auðvitað hjá sér."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.