Innlent

Miltisbrandur kann að koma upp

Auglýst hefur verið eftir upplýsingum um gamlar grafir þar sem skepnum hefur verið fargað vegna miltisbrands. Sigurður Sigurðarson, dýralæknir á Keldum, segir að merkja þurfi þessi svæði til að koma í veg fyrir að hreyft verði við sýktri jörð, því ef miltisbrandssýktar dýraleifar komi upp á yfirborðið kunni bakteríur að berast í menn og dýr. Því þurfi að sýna aðgát þegar grafið sé fyrir skólpræsum, húsum og slíku. Sigurður segir að miltisbrandur sé bráð og lífshættuleg sýking sem valdi garnabólgum og blæðingum úr vitum dýra. Miltisbrandur geti líka valdið lífshættulegu drepi hjá mönnum berist hann í sár. Almenningur á þó ekki að vera í teljandi hættu á að sýkjast. Síðast kom upp miltisbrandssýking hér á landi árið 1965, þegar einar fimm kýr drápust og tveir menn fengu útbrot á handleggi. Sýkingin reyndist ekki banvæn, enda eru til virk lyf við henni. Sigurður segir að sýkingin hafi gengið á landinu í hundrað ár, frá 1865 til 1965. Hún náði nokkurri útbreiðslu á nítjándu öld í búpeningi og náði hámarki um aldamótin 1900. Þá barst miltisbrandur hingað með innfluttum ósútuðum húðum sem komu alla leið frá Afríku í gegnum Danmörku. Þá drápust nokkrir tugir skepna. Síðar náðist að hefta sýkinguna með því að banna innflutning á húðunum. Mikið hefur verið fjallað um miltisbrand í Bandaríkjunum á undanförnum árum. Þar hafa óvandaðir menn sent hann með pósti til einstaklinga, stofnana og fyrirtækja.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×