Innlent

Segja enn loforð hafa verið gefin

Stjórnarformenn Olís og Essó halda fast í þær fullyrðingar sínar að fulltrúar Samkeppnisstofnunar hafi lofað að málinu yrði hvorki beint að einstaklingum né færi það í lögreglurannsókn. Það hafi verið forsenda þess að þeir hófu samstarf við Samkeppnistofnun um rannsókn á ólögmætu samráði olíufélaganna. Kristján Loftsson, stjórnarformaður Olíufélagsins ehf., sem í dag heitir Ker hélt því fram í fréttum Stöðvar tvö á laugardaginn að félagið hefði sett fram þrjú skilyrði fyrir samstarfi á fundi með Guðmundi Sigurðssyni yfirmanni samkeppnissviðs. Á þessi skilyrði hefði Guðmundur fallist, þar á meðal að Samkeppnisstofnun myndi ekki hafa frumkvæði að því að fara með mál starfsmanna til lögreglu. Georg Ólafsson forstjóri Samkeppnisstofnunar lýsti því yfir í samtali við Morgunblaðið að þessar fullyrðingar Kristjáns séu rangar. Kristján heldur hins vegar fast við þessa skýringu og segir Georg ekki geta tjáð sig um málið þar sem hann hafi ekki verið á fundinum heldur Guðmundur Sigurðsson. Guðmundur vildi hins vegar ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað. Fundurinn sem vitnað er til var á milli Guðmundar og þriggja fulltrúar Olíufélagsins Essó, stjórnarformanns, varaformanns stjórnar og lögmanns. Samkvæmt heimildum fréttastofu sammæltust fundarmenn um að aldrei yrði minnst á fundinn, hvorki að hann hefði verið haldinn, né efni hans. Hvað um það eftir stendur í raun orð gegn orði. Ef samkomulag af þessu tagi var gert eru ekki til skriflegar heimildir. Georg Ólafsson segir Guðmund ekki hafa haft heimildir til að lofa neinu þessu líku fyrir hönd stofnunarinnar og segja má að það liggi í hlutarins eðli að hann hafi ekki haft það. Það megi lögmenn vita. Hins vegar er á það að líta að Gísli Baldur Garðarsson hæstaréttarlögmaður og stjórnarformaður Olíuverslunar Íslands, Olís segist líka hafa fengið loforð frá fulltrúa Samkeppnisstofnunar um að ekki yrði farið með málið til lögreglu. Að þessu sinni hafi loforðið komið frá Ásgeiri Einarssyni yfirlögmanni Samkeppnisstofnunar. Gísli segir að Samkeppnisstofnun hafi lofað því að hún myndi ekki hafa frumkvæði að lögreglurannsókn. Það liggi í hlutarins eðli að menn, sem geti átt yfir höfði sér sektir eða fangelsisdóm, gefi ekki yfirvaldi skýrslu nema menn njóti réttarstöðu grunaðs, sem hafi ekki verið í þessu tilviki. Gísli segir að loforð Samkeppnisstofnunar hafi ekki verið skriflegt, en það hafi legið skýrt fyrir að loforðið væri forsenda þess að starfsmenn Olíverslunarinnar gæfu skýrslu. Það væri enda órökrétt að fara í skýrslugerð ef svona lagað lægi ekki fyrir. Aðspurður um hvers vegna ekki hafi verið farið fram á að fá loforðið skriflegt, segir Gísli að menn hafi einfaldlega treyst orðum Ásgeirs Einarssonar, sem stjórnað hafi rannsókninni. Hann hafi gefið mörgum þá yfirlýsingu að ekki yrði farið með málið til lögreglunnar. Gísli segir að allir aðrir sem að málinu hafi komið hafi fengið viðlíka viðleitni. Hann kannast ekki við það að þetta sé notað til varnar þegar mál séu orðin slæm, það hafi verið forsenda þess að skýrsla var gefin að ekki yrði farið með málið til lögreglunnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×