Innlent

Andstaðan ósátt

Stjórnarandstaðan segir að ríkisstjórnin beri mikla ábyrgð á þeim ógöngum sem deila kennara og sveitarfélaga sé komin í. Lagafrumvarpið sem bannar verkfall kennara var rætt í rúmlega fimm klukkustundir á Alþingi í dag. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, tjáði sig fyrstur um frumvarpið og stöðu mála eftir að forsætisráðherra hafði kynnt það. Hann sagðist hafa fullan skilning á því að þegar mál væru komin í þvílíkan hnút þá væri nauðsynlegt að grípa til aðgerða. Hins vegar bæri ríkisstjórnin talsverða ábyrgð á þeim hnúti sem mál væru komin í. Össur sagði aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar hafa leitt til þess að málin hefi lent í þeim hnút sem þau væru í nú. Vinstri grænir eru andvígir frumvarpinu og þingflokksformaður þeirra, Ögmundur Jónasson, hjó í sama knérunn og formaður Samfylkingarinnar. Hann sagði ríkisstjórnina hafa neitað að axla ábyrgð og nú beitti hún fyrir sig börnum landsins, sem væri ekki stórmannlegt. Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður Frjálslyndra, hvatti þingheim til að taka höndum saman þannig að svona stórslys endurtæki sig ekki. Hann sagði slíkt ekki mega gerast aftur að börn væru í reyðileysi vikum saman. Þorgerður K. Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, rifjaði upp fyrri ummæli sín um að lög á kennaraverkfallið væru neyðarúrræði og að reynsla ríkisvaldsins af lagasetningu væri slæm. Hún sagði hins vegar að staðan færi bara versnandi og að deilendur fjarlægðust hvorn annan frekar en hitt. Þorgerður sagði stöðuna afar erfiða og neyðin sem komin væri upp réttlætti það frumvarp sem verið væri að ræða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×