Sport

Tyrkland bætist við Formúluna

Dagatalið fyrir næsta ár í Formúlu 1 kappakstrinum er því sem næst tilbúið en keppt verður á einni braut í Tyrklandi til viðbótar við þær brautir sem keppt var á í ár. Hafa Tyrkirnir fengið dagsetninguna 21. ágúst úthlutaða og verður forvitnilegt að fylgjast með enda hitastig þar hátt á þeim tíma árs, mun heitara en í Ungverjalandi og á Ítalíu sem eru báðum megin við keppnina í Tyrklandi. Enn eru viðræður í gangi við Frakka og Breta og eftir að ganga frá smáatriðum meðan keppnin í San Marino gæti verið í uppnámi ef samningar við F1 verða ekki heiðraðir. Að öðru leyti er allt frágengið nema dagsetningar á einni keppni í Evrópu, keppninni í Bandaríkjunum og í Kína. Ekki eru áætlaðar verulegar breytingar á keppnisfyrirkomulagi að svo stöddu en það gæti breyst áður en keppni hefst formlega þann 6. mars í Ástralíu. Í ljós kom í breskri skoðanakönnun að yfir 60 prósent aðspurðra vildu leyfa kvenkyns keppendum að taka þátt ásamt körlunum en ekki er vitað til þess að F1 samtökin hafi skoðað það mjög alvarlega þrátt fyrir dvínandi vinsældir greinarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×