Innlent

Úðabrúsinn stórkostleg uppfinning

Meðal staða sem staðnæmst verður við er höfnin í Reykjavík þar sem þrjú herskip úr Nató-flotanum fengu að kenna á uppreisnarhug íslenskrar æsku í maí 1968, daginn sem hægri umferð var tekin upp í landinu. Fyrir mótmælendum fór Vernharður Linnet, síðar kunnur djassgeggjari, sem var virkur í Fylkingunni, æskulýðsfélagi Alþýðubandalagsins. "Þarna var nýkomin til sögunnar þessi stórkostlega uppfinning sem úðabrúsarnir voru," segir Vernharður þegar hann rifjar upp þennan vordag fyrir 36 árum. "Þeir fengust í Málaranum og við fórum og keyptum nokkra og höfðum uppi kennslu í notkun þeirra." Þegar menn höfðu náð tökum á tækninni var stormað niður á höfn þar sem tvö herskip lágu, annað frá Bretlandi og hitt frá Vestur-Þýskalandi. Þriðja skipið, bandarískt, lagði hins vegar ekki í að leggja að bryggju enda höfðu mikil mótmæli orðið hvar sem þau komu í höfn í Evrópu. "Ég úðaði á breska skipið: "Ísland úr Nató - herinn burt" og í kjölfarið upphófust svolítil slagsmál. Skipverjar gripu til þess ráðs að spúla á mannskapinn og ætluðu að spúla okkur burt en það varð til þess að áhorfendur gengu í lið með mótmælendum og frekari slagsmál urðu." Nokkrir voru handteknir en Vernharður segir að lögreglan hafi verið afskaplega pen og prúð. Þar sem hægri umferðin var innleidd þennan sama dag var fjöldi lögreglumanna við umferðareftirlit út um alla borg og viðbúnaðurinn við höfnina tók mið af því. Í kjölfarið fylgdu svo frekari mótmæli því í júní var ráðherrafundur Nató haldinn á Íslandi. "Þá efndum við til mikillar Keflavíkurgöngu og meðal annars komu hingað nokkrir Grikkir. Hershöfðingjastórnin hafði náð völdum í Grikklandi og grískir útlagar komu til að taka þátt í mótmælunum. Svo voru mótmæli við Háskólann þar sem fundurinn var haldinn og fyrir handvömm lögreglu komust mótmælendur á tröppur Háskólans. Þar voru nokkrir handteknir," segir Vernharður. Til fundarins voru meðal annarra mættir Willy Brant, kanslari Vestur-Þýskalands, Dean Rusk, utanríkisráðherra Bandaríkjanna og fulltrúi grísku fasistastjórnarinnar. Vernharður hlakkar til göngunnar á morgun og vonast til að margir gangi um þessar merku söguslóðir. Inntur eftir stjórnmálaafskiptum hans eftir þetta segist hann nú hafa verið rekinn úr Fylkingunni 1974 og ekki verið í pólitík síðan. "Trotskíistar náðu völdum í félaginu og töldu mig óæskilegan. Ég græt það ekkert sérstaklega og hef ekki skipt mér af stjórnmálum síðan." Landsráðstefna Samtaka herstöðvaandstæðinga verður í fundarsal að Vesturgötu 7 á morgun og hefst klukkan ellefu. Klukkan tvö hefst svo róttæklingaröltið sem lýkur með óvæntri uppákomu sem friðarsinnar eru hvattir til að missa ekki af.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×