Skoðun

Lengjum opnunartíma Háskólasafns

Háskólabókasafnið Jarþrúður Ásmundsdóttir Á fundi háskólaráðs í dag verður tekin afstaða til þess hvort setja eigi 8 milljónir í kvöld- og helgaropnun Þjóðarbókhlöðunnar. Undanfarið hefur stúdentaráð, undir forystu Vöku, lagt allt kapp á að lengja opnunartíma Háskólabókasafnsins aftur. Í haust neyddust forsvarsmenn hlöðunnar að stytta opnunartímann vegna þess að Háskólinn kaus að greiða ekki safninu fjárframlag ríkisins samkvæmt rammasamningi. Í ár var þessi samningur aftur á móti lagður niður og því er Háskólanum frjálst að ráðstafa því fé sem ríkið leggur til hans að vild. Í kjölfarið kusu forsvarsmenn Háskólans að skerða opnunartíma Háskólabókasafnsins. Stúdentaráð mótmælti ákvörðun Háskólans með eftirminnilegum hætti 17. september síðastliðinn og efndi til mótmælastöðu fyrir utan Þjóðarbókhlöðuna. Borðum og stólum var stillt upp fyrir utan og þegar Háskólabókasafninu var lokað klukkan sjö, tóku stúdentar sér stöðu og héldu áfram að læra. Þar með sýndu stúdentar í verki hve fáránlegt það er að úthýsa þeim úr bestu vinnuaðstöðu skólans. Stúdentar hafa sýnt vilja sinn og samtöðu í verki. Undanfarna daga hefur stúdentaráð safnað undirskriftum þar sem skorað er á háskólaráð að greiða atkvæði með tillögu stúdenta og tryggja þeim aðgang að Háskólabókasafninu. Vel á þriðja þúsund stúdenta hafa skrifað undir og því er ljóst hver vilji þeirra er í málinu. Eftirtaldir einstaklingar sitja í háskólaráði og bera ábyrgð á niðurstöðu málsins: Páll Skúlason rektor og forseti háskólaráðs, Eiríkur Tómasson prófessor í lagadeild, Vilhjálmur Árnason prófessor í heimspekideild, Rögnvaldur Ólafsson dósent í raunvísindadeild, Jón Ólafur Skarphéðinsson prófessor í hjúkrunarfræðideild, Jóhannes R. Sveinsson dósent í verkfræðideild, Inga Jóna Þórðardóttir viðskiptafræðingur, Matthías Páll Imsland deildarsérfræðingur. Fulltrúar stúdenta: Bryndís Harðardóttir nemi í hagfræði og Anna Pála Sverrisdóttir nemi í lögfræði. Stúdentar við Háskóla Íslands treysta á ykkar stuðning í þessu máli.



Skoðun

Sjá meira


×