Viðskipti innlent

Barist um sætin

Fylkingar í eigendahópi Íslandsbanka eru víghreifar fyrir kosningu í bankaráð á hluthafafundi í dag. Annars vegar takast á hópur fjáfesta sem bankaráðsmennirnir Karl Wernersson, Einar Sveinsson og Jón Snorrason fara fyrir. Hins vergar eru fulltrúar Straums og annarra sem Helgi Magnússon fer fyrir. Straumur hefur enn ekki grænt ljós frá Fjármálaeftirlitinu sem kjölfestufjárfestir og að óbreyttu getur Straumur ekki nýtt nema tæp tíu prósent af eign sinni. Það dugir fyrir einum manni í bankaráðið. Hins vegar gæti Straumur selt með framvirkum samningi eignarhlut og virkjað þannig atkvæðisrétt fyrir tæp átta prósent. Sú staða dyggði fyrir tveimur mönnum, auk þess sem sú fylking gerir sér vonir um stuðning frá einhverjum lífeyrissjóðum og smærri hluthöfum. Straumur stefnir á þrjá menn. Hin fylkingin er örugg með fjóra kjörna. Karl, Einar og Jón eru líklegast tryggir og búast má við að Steinunn Jónsdóttir nái einnig kjöri. Spennan er um Ólaf B. Thors og Róbert Melax. Róbert nýtur stuðnings Karls Wernerssonar sem er næst stærsti hluthafinn á eftir Straumi. Ólafur er á vegum Einars Sveinssonar. Hann nýtur velvildar út fyrir hópinn og er talinn líklegur til að afla atkvæða smærri hluthafa.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×