Sport

Rekinn eftir þrjá sigurleiki

Stjórn Körfuknattleiksdeildar Grindavíkur ákvað á laugardaginn að reka Örvar Kristjánsson sem þjálfara kvennaliðs félagsins þrátt fyrir að liðið sé á toppi deildarinnar með þrjá sigra í þremur fyrstu leikjunum. Stjórnin gaf frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að Örvar hefði ekki verið að ná því út úr liðinu sem ætlast var til og að leikmannahópurinn væri það sterkur að liðið ætti að geta meira en það hefði sýnt til þessa. Stjórnin lætur þess þó einnig getið að mörgum kunni að þykja undarlegt að þjálfara sé sagt upp störfum eftir að liðið hefur leikið þrjá leiki og unnið þá alla en leikur liðsins var alls ekki sannfærandi og stjórnin viss um að hægt sé að bæta leik liðsins til muna. Það verkefni fær Henning Henningsson en það er ljóst að hann á erfitt verkefni fyrir höndum að stýra liði Grindavíkur með kröfuharða stjórnarmenn á bakinu. Fréttablaðið ræddi við Örvar í gær og hann vildi lítið tjá sig um málið. Hann sagðist ekki vera sáttur við ákvörðun stjórnarinnar en gæti þó lítið gert annað en að taka henni karlmannlega. "Ég skal vera fyrstur til að viðurkenna að liðið var ekki að spila eins og það getur best en það voru aðeins búnir þrír leikir og miðað við það hefði ég viljað fá meiri tíma. Við erum með marga nýja leikmenn, nýjan þjálfara og það tekur sinn tíma. Ég geng hins vegar stoltur frá þessu verkefni og óska stelpunum góðs gengis í vetur," sagði Örvar sem hefur nú nægan tíma til að spila með hinu nýstofnaða liði Ljónanna í 2. deildinni. Almar Þór Sveinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur, sagði í samtali við Fréttablaðið að hann hefði engu við yfirlýsingu stjórnarinnar að bæta. "Þessu máli er lokið af okkur hálfu." Þegar Almar var spurður að því hvort ekki væri fullharkalegt að reka þjálfara eftir aðeins þrjá leiki sem allir unnust svaraði Almar Þór því til að liðið hefði ekki verið sannfærandi og það væri mat stjórnar að annar þjálfari gæti náð meira út úr liðinu. Fréttablaðið hefur áreiðanlegar heimildir fyrir því að leikmenn liðsins hafi verið á móti Örvari og átt sinn þátt í því að hann var látinn fara. Almar Þór vildi engu svara til um það og bað undirritaðan um að spyrja leikmennina sjálfa að því. Fréttablaðið hafði samband við Ernu Rún Magnúsdóttur, dóttur Magnúsar Anda Hjaltasonar, varaformanns körfuknattleiksdeildar Grindavíkur, og spurði hana hvort leikmenn liðsins væru ánægðir með að Örvar væri látinn fara. Fátt var um svör hjá Ernu Rún en hún játti því að liðið hefði ekki verið að spila vel undir stjórn Örvars. "Við erum með hörkulið sem á að geta spilað betur en það hefur gert," sagði Erna Rún.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×