Skoðun

Himininn er að hrynja, hæna mamma

Kennaraverkfall - Elín G. Ólafsdóttir "Af hverju heldurðu það, Ungi litli?" "Ég sá það með augunum og heyrði það með eyrunum, og brot úr honum datt á stélið á mér". Þá sagði lágfóta: "Við skulum hlaupa, við skulum hlaupa, inn í grenið mitt, og ég skal segja kónginum það". Þau hlupu inn í grenið hennar lágfótu, gráfótu, en þau komu aldrei út aftur. Kennarar kunna góðu heilli söguna af Unga litla og standa þétt saman í baráttu fyrir bættum kjörum. Samninganefnd sveitarfélaga mætir þéttum vegg samherja sem ekki þekkist heimboð lágfótu. Að leggja niður vinnu er þungbær ákvörðun. Verkfall er neyðarréttur þeirra sem verkkaupi misbýður. Samtök launafólks urðu til vegna biturrar reynslu réttlauss verkafólks og vanmáttar einstaklinga við að verjast yfirgangi "vinnuveitenda" - yfirstéttar karlasamstöðunnar sem vill geta skammtað sjálfri sér laun en öðrum skít úr hnefa. Verkföll reyna á. En hvað skal gera þegar hvorki er hlustað, hvað þá svarað mánuðum saman? Grunnskólakennarar eru að stærstum hluta kvennastétt, illa haldin í launum. Almennt eru laun kvenna á Íslandi úti í hafsauga og það þótt þær beri uppi uppeldi, menntun, atvinnulíf og heimilisrekstur þjóðarinnar. Okkur konur vantar samstöðuanda kennslukvenna. Verkfall kennara er farið að taka á taugar. Uppvakningar húsbóndavaldsins eru því upp risnir úr öllum áttum. Sjálfir sitja þeir í hægu sæti á margföldum launum kennslukvenna – láta aðra draga vagninn eða stunda sjálftöku launa og slá fram lausnum lágfótu. Fulltrúar eiginhagsmuna – lágfótur allra tíma éta minnimáttar. Þeim fjölgar sem hafa gleymt harðsóttum rétti einyrkjans gagnvart húsbóndavaldinu. Þeim fjölgar sem hafa sjálfir öðlast húsbóndavald í krafti nýfrjálshyggju sem sundrar samtakamætti fólks. Þeim fjölgar sem hafa aldrei kynnst bágum kjörum einyrkjans og þeirra sem minna mega sín. Þessir spámenn jafna nú samtökum kennara við valdakerfi hinna harðsnúnu vinnuveitenda og slást í lið með þeim sem vilja veikja eða slá af samtök launafólks – taka verkfallsrétt af kennurum – setja þá undir Kjaradóm. Himinninn er að hrynja yfir marga kennara en þið skuluð ekki þekkjast heimboð lágfótu – þá verðið þið étin með húð og hári. Standið keik, allt sanngjarnt fólk styður ykkur.



Skoðun

Sjá meira


×