Skoðun

Ekki lifað á meðaltölum

Lífeyrismál eldri borgara - Benedikt Davíðsson, Ólafur Ólafsson, Einar Árnason Vegna fréttaskýringar í Fréttablaðinu þann 18. október "Skattbyrðin eykst á meðan lífeyririnn skerðist" þurfum við undirritaðir að taka fram eftirfarandi: Greinar okkar um skattbyrði og kaupmátt hafa snúist um raunverulega stöðu um 25-30% hinna tekjulægstu ellilífeyrisþega en ekki þá sem hafa miklar aðrar tekjur eða um framtíðarsýn næstu kynslóða ellilífeyrisþega. Svör um meðaltöl og betri tíma annarra síðar duga þeim skammt sem nú þurfa að lifa á lægri tekjum. Við höfum sýnt fram á að tekjuskattar hafi hækkað mikið á lægri tekjur vegna þess að skattleysismörk hafa ekki hækkað í takt við þróun verðlags og að þau ættu að vera 99.557 kr ef þau hefðu fylgt þróun verðlags frá 1988 og 114.965 kr. á mánuði ef þau hefðu fylgt launavísitölu en eru aðeins 71.270 kr. á mánuði í dag. Þannig greiðir sá sem er með 100.000 kr. á mánuði 11.084 kr. eða um 11,1% tekna sinna í skatt nú árið 2004 en greiddi aðeins 0,2% tekna sinna í skatta fyrir sömu rauntekjur árið 1988. Þá kemur oft svarið að tekjur hafi hækkað svo mikið. Hér höfum við sýnt fram á að hjá þeim sem hækkuðu ekki í rauntekjum (þ.e. tekjur hækkuðu ekki nema eins og verðlag) hefur skattbyrðin aukist verulega – skattar hafa hækkað á lægri tekjur eins og dæmið hér að ofan sýnir. Það er svo annað mál sem sífellt er snúið út úr með að skattar hækki vegna þess að tekjur hækki. Það gerist líka. Þetta breytir ekki því að skattbyrði á lægri tekjur hefur aukist verulega og 1-4% lækkun skattprósentunnar við óbreytt skattleysismörk myndi litlu breyta. Þannig myndi 4% lækkun skattprósentunnar samt skilja þann í dæminu hér að ofan eftir með verulega hækkaða skattbyrði frá árinu 1988 eða úr 0,2% af tekjum í 9,9% af tekjum nú árið 2004 og þá er átt við aðila sem ekki hækkaði í rauntekjum. Kaupmáttur ráðstöfunartekna dæmigerðs ellilífeyrisþega með 45.860 kr. á mánuði úr lífeyrissjóði auk greiðslna almannatrygginga hefur lækkað um 6,85% eða 7.013 kr. á mánuði frá árinu 1988. Þar kemur tvennt til sem veldur þessari lækkun kaupmáttar ráðstöfunartekna ellilífeyrisþegans: Annars vegar aukin skattbyrði eins og að ofan er getið. Auk þess urðu lög frá árinu 1995 til þess að klippt var á tengingu á að greiðslur almannatrygginga (grunnlífeyrir og tekjutrygging) breyttust í takt við hækkun lágmarkslauna þannig að greiðslurnar eru 16.248 krónum lægri á mánuði til ellilífeyrisþega nú í dag en ef lögin frá 1995 hefðu ekki komið til. Mjög stór hluti ellilífeyrisþega hefur um 46.000 kr. á mánuði úr lífeyrissjóði eða minna auk greiðslna frá almannatryggingum. Aðili með t.d. 45.860 kr. á mánuði úr lífeyrissjóði hefur grunnlífeyri og fulla tekjutryggingu frá almannatryggingum en ekki tekjutryggingarauka. Tekjur úr lífeyrissjóði hafa hækkað eins og verðlag en greiðslur almannatrygginga hafa hækkað umfram það þó þær hafi hvergi nærri hækkað eins og lágmarkslaun eða laun almennt. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hans hefur lækkað um 6,85% frá 1988 eða um 7.013 kr. á mánuði. Það dugar ekki að vísa í hærri tekjur sumra ellilífeyrisþega núna eða í framtíðinni og aukinn kaupmátt þeirra. Fyrir þennan stóra hóp sem hér er til umfjöllunar er raunveruleikinn allt annar, hann hefur orðið að þola skerðingu kaupmáttar ráðstöfunartekna. Benedikt er formaður LEB, Ólafur formaður FEB og Einar hagfræðingur samtakanna.



Skoðun

Sjá meira


×