Viðskipti innlent

Sækja hundruð milljarða á markað

Íslensk fyrirtæki hafa sótt yfir hundrað milljarða á hlutabréfamarkaði í ár og ekkert útlit er fyrir að það hægi á þessari þróun. Fyrirtæki sjá mikil tækifæri til að treysta undirstöður sínar með því að sækja fé á hlutabréfamarkað um þessar mundir. Ástæðan er gott árferði á hlutabréfamarkaði og há verðlagning á fyrirtækjum. Þegar nýtt hlutafé er gefið út hefur það í för með sér að þeir sem fyrir áttu hlutabréf eiga minni hlut í félaginu en áður. Það kemur sér því vel þegar hlutabréf eru hátt verðlögð því þá er hægt að sækja mikið fé á markað gegn tiltölulega litlum hlut í fyrirtækinu. Þegar verðlagning á hlutabréfamörkuðum er lægra nýta fyrirtæki sér lán og skuldabréfaútgáfu í meiri mæli til þess að fjármagna verkefni sín. Greiningardeild KB banka sagði frá því í Hálf fimm fréttum að nú þegar hafi hlutafjáraukningar að verðmæti 116 milljarðar króna átt sér stað. Önnur fyrirtæki hafa lýst yfir að þau stefni að því að hækka hlutafé sitt á næstunni auk þess sem gert er ráð fyrir að bréf ríkisins í Símanum verði sett á markað. Að öllu þessu samantöldu nemur verðmæti nýs hlutafjár í Kauphöll Íslands 266 milljörðum króna. KB banki hefur fengið 92,4 milljarða í nýju hlutafé í tveimur umferðum hlutafjáraukninga. Íslandsbanki og Landsbanki hafa einnig selt nýtt hlutafé fyrir um sex milljarða samtals. Íslandsbanki, Flugleiðir og Bakkavör ætla að sækja nýtt hlutafé á næstunni og miðað við núverandi gengi bréfa í félögunum munu fyrirtækin afla alls rúmlega 66 milljarða króna. Þá er ótalið að ríkisstjórnin undirbýr nú sölu á hlut sínum í Símanum. Enn er ekki vitað hvernig sölunni verður háttað en sé tekið mið af verði fyrirtækisins á markaði gæti verðmæti hlutar ríkisins numið um 67 milljörðum króna. Verði Síminn seldur í heilu lagi fyrir það verð á næstunni er heildarinnspýting nýs fjármagns á hlutabréfamarkaði kominn upp um tvö hundruð milljarða á nokkrum misserum. Sérfræðingar í hlutabréfaviðskiptum benda á að stór fyrirtæki hafi verið dugleg að nýta sér góðærið á markaði með útgáfu nýs hlutafjár. Þetta er ólíkt því sem var þegar uppsveifla var síðast á markaði þegar ný fyrirtæki færðu sér ástandið í nyt með því að skrá sig á markað.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×