Skoðun

Kosið um laun kennara

Þegar Bandaríkjamenn ganga til kosninga 2. nóvember næstkomandi fá þeir tækifæri til að kjósa um fleira en forseta og þingmenn. Það er misjafnt eftir ríkjum um hvaða málefni verður kosið. Í Washington-ríki eru laun grunnskólakennara meðal þess sem kosið verður um. Lögð hefur verið fram tillaga um að söluskattur í ríkinu verði hækkaður um eitt prósent og að afraksturinn verði notaður til menntamála. Samkvæmt tillögunni á að nota þennan nýja sjóð meðal annars til að hækka laun grunnskólakennara, fækka nemendum í bekkjum og auka sérkennslu í grunnskólum. Í kosningunum 2. nóvember næstkomandi fá íbúar Washington-ríkis tækifæri til að sýna afstöðu sína til menntamála með því að annað hvort styðja þessa tillögu eða hafna henni. Það verður athyglisvert að fylgjast með afstöðu íbúa hér til þessara mála. Fyrirhugaðar skattalækkanir á Íslandi munu hafa lítil áhrif á tekjulægri landsmenn. Á sama tíma og til stendur að lækka skatta eru grunnskólakennarar að reyna að ná fram réttlátum kjörum. Svo virðist sem mikil tregða sé fyrir hendi hjá sveitarfélögum að ganga til samninga við kennara og ríkisstjórnin kemur ekki enn að þessu erfiða máli. Því þótti mér vel við hæfi að vekja athygli á þeirri tillögu sem fyrir liggur hér vestra um að hækka söluskattinn og skapa þar með svigrúm til að bæta skólastarf. Fyrir mig sem verðandi foreldri í íslenskum grunnskóla skipta kjör kennara á Íslandi mjög miklu máli. Ég sendi kennurum á Íslandi baráttukveðjur og vona að stjórnvöld sjái sóma sinn í að ganga til samninga við kennara sem allra fyrst. <I>Höfundur er doktorsnemi í Seattle í Bandaríkjunum.<P>



Skoðun

Sjá meira


×