Sport

Skoruðu 24 þriggja stiga körfur

Grindvíkingar settu á svið mikla skotsýningu í Röstinni í Grindavík í lokaleik 2. umferðar Intersportdeildar karla í kvöld. Grindavík vann lið Hamars/Selfoss með 23 stiga mun, 134-111 en 72 stiga Grindavíkurliðsins komu úr þriggja stiga skotum. Grindavíkurliðið hitti úr 24 af 46 þriggja stiga skotum sínum (52%) en liðið var búið að gera tíu þrista strax í fyrsta leikhluta leiksins en hver leikhluti er tíu mínútur.  Fyrirliðinn Páll Axel Vilbergsson skoraði átta af þessum þriggja stiga körfum og notaði til þess 14 skot en Darrel Lewis var með 7 þrista úr 11 skotum. Lewis skoraði alls 46 stig í leiknum og hefur gert 81 stig í fyrstu tveimur leikjum liðsins. Þá nýtti Jóhann Ólafsson 4 af 8 þriggja stiga skotum sínum en all skoruðu sex leikmenn Grindavíkurliðsins þriggja stiga körfur í leiknum. Hamarsmenn skoruðu sjálfir átta þriggja stiga körfur og því voru þriggja stiga körfurnar alls 32 á þeim 40 mínútum sem liðin spiluðu í Röstinni í gær. Nýting gestanna úr Hveragerði var einnig góð, hittu úr 8 af 13 skotum og því var hittnin fyrir utan þriggja stiga línuna 54% því leikmenn leiksins nýttu 32 af 59 skotum sínum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×