Sport

19 kappakstrar í formúlunni 2005

Nú er orðið ljóst að það verða 19 kappakstrar í formúlu eitt á næsta ári en fyrsta útgáfa dagatalsins fyrir keppnisárið 2005 hefur nú verið kynnt. Alþjóðasamband formúlu eitt heldur tryggð við Silverstone-, Magny-Cours- og Imola-brautirnar sem voru allar í hættu að detta út af listanum auk þess sem nýr keppnisstaður í Tyrklandi fær sína frumraun á næsta tímabili. Tyrkneski kappaksturinn átti alltaf að bætast við 2005 og því voru uppi vangaveltur um hvaða braut myndi detta út en þess í stað bættist bara við og því verður um stærsta tímabil sögunnar að ræða á næsta ári. Mikil uppstokkun hefur farið fram til að koma öllum þessum keppnum fyrir. Nú byrjar keppnin í Evrópu sem dæmi á tveimur helgum í röð í Frakklandi og svo San Marínó. Tyrkneski kappaksturinn fylgir í kjölfar Silverstone í lok sumars, belgíska kappakstrinum er seinkað fram í miðjan september og ungverski kappaksturinn hefur verið fluttur til þess að passa saman við keppnina í Tyrklandi en mikið af þessum tilfærslum eru gerðar til þess að stýra betur hragræðingu í hinum miklu flutningum sem fylgja keppnisliðunum á milli keppnisstaða. Eins og vanalega byrjar formúlan í Ástralíu en endar nú í Kína þar sem brasilíski kappaksturinn hefur verið fluttur fram. Nú er aðeins ein keppni eftir á þessu tímabili og hún fer fram í Brasilíu en þetta verður því í síðasta skiptið í bili þar sem formúlan endar þar. Lokaútgáfa dagatalsins verður sett fram 10. desember næstkomandi og enn gætu því orðið breytingar á röð kappakstranna en fjöldi þeirra er kominn á hreint.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×