Sport

Fyrsti ósigurinn í 11 ár

Óvænt úrslit urðu víða í leikjum gærdagsins í undankeppni HM. Ítalir töpuðu 0-1 fyrir Slóvenum í Celje í Slóveníu. Þetta var fyrsti ósigur þeirra í undankeppni heimsmeistaramóts frá 1993. Þá biðu þeir lægri hlut fyrir Svisslendingum. Frakkar máttu þakka fyrir að sleppa með jafntefli gegn Írum í leik liðanna í París í gær. Ekkert mark var skorað í leiknum en Fabian Barthez varði nokkrum sinnum glæsilega í franska markinu. Þetta var þriðja jafntefli Frakka á heimavelli í röð. Danir sigruðu Albana 2-0 í Tirana, Finnar sigruðu Armena 3-1 í Tampere, Norðmenn lögðu Skota að velli 1-0 í Glasgow, Tékkar unnu Rúmena 1-0 í Prag, Makedónar og Hollendingar gerðu 2-2 jafntefli í Skopje og Spánverjar unnu Belga 2-0 í Santander. Svíar unnu Ungverja 3-0 í gær. Fredrik Ljungberg, Henrik Larsson og Anders Svenson skoruðu mörkin. Króatar og Búlgarar gerðu 2-2 jafntefli. Króatar hafa forystu í riðlinum með 7 stig, Svíar eru með 6 stig, Búlgarar 4, Ungverjar 3 og Íslendingar og Möltumenn hafa eitt stig. Portúgalar náðu aðeins 2-2 jafntefli gegn Liechtensteinum en þeir eru í 151. sæti á styrkleikalista Alþjóða knattspyrnusambandsins. Þetta var fyrsta stig Liechtensteina í 20 leikjum á átta árum. Áður en flautað var til leiks höfðu þeir aðeins skorað fjögur mörk en fengið á sig 84. Færeyingar náðu í fyrsta stig sitt þegar þeir gerðu 2-2 jafntefli við Kýpurmenn. KR-ingurinn Rógvi Jakobsen skoraði annað mark Færeyinga. Í Suður Ameríkuriðlinum unnu Argentínumenn Úrúgvæja 4-2 og Brasilíumenn sigruðu Venesúela 5-2. Kaka og Ronaldo skoruðu tvö mörk hvor og Adriano, leikmaður Inter Milan, skoraði eitt mark. Brasilíumenn hafa forystu í riðlinum þegar keppni er hálfnuð, hafa 19 stig, einu meira en Argentínumenn sem eru í öðru sæti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×