Sport

Drogba í aðgerð

Eiður Smári Guðjohnsen ætti að vera nokkuð öruggur með sæti í byrjunarliði Chelsea næstu vikurnar ef marka má fréttirnar af meiðslum félaga hans í liðinu, Didier Drogba en Lundúnaliðið hefur aðeins skorað 8 mörk í fyrstu átta leikjum ensku úrvalsdeildarinnar og þurfa því nauðsynlega á öllum sínum sóknarmönnum að halda. Drogba þarf að fara í aðgerð en nárameiðsli kostuðu hann leikinn við Liverpool um síðustu helgi. Drogba sem var keyptur á 24 milljónir punda frá Marseille fyrir tímabilð, verður frá í mánuð til viðbótar. "Meiðsli hans voru af því tagi að læknadeildin okkar taldi best að hann færi í þessa litlu aðgerð en ég býst við honum eftir fjórar til fimm vikur," sagði framkvæmdastjórinn Jose Mourinho en næsti leikur Chelsea er gegn Manchester City 16. október. Mourinho hefur nú aðeins úr tveimur sóknarmönnum að velja, Serbanum Mateja Kezman og svo Eið Smára þar sem Rúmeninn Adrian Mutu lenti upp á kant við Portúgalann á dögunum. Mutu hefur ekki fengið tækifæri síðan að lánssamningur hans við Juventus fór fyrir ofan garð og neðan en þeir Eiður Smári, 1 mark, og Kezman, ekkert mark, standa Drogba langt að baki í markaskorun á tímabilinu en þessi snjalli sóknarmaður frá Fílabeinsströndinni hefur skorað 5 mörk í tíu leikjum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×