Sport

Aldrei lægri á FIFA-listanum

Íslenska knattspyrnulandsliðið er í 88. sæti á nýjum styrkleikalista FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandsins, en októberlistinn var kynntur hjá sambandinu í gær. Íslenska landsliðið fellur um átta sæti frá því í september og þjóðir eins og Angóla, Kenía, Gvæjana og Sýrland komust upp fyrir okkur að þessu sinni því íslenska liðið tapaði fyrstu tveimur leikjum sínum í undankeppni HM. Íslenska landsliðið hefur aldrei verið neðar á þessum lista sem hefur verið gefinn út frá því í ársbyrjun 1993. Íslenska liðið var einnig í 88. sæti í ágúst 1997 en hæst komst liðið í 42. sæti í ársbyrjun 2000. Íslenska liðið var í 58. sæti í ársbyrjun á umræddum lista en hefur fallið um heil 30 sæti á þessum tíu mánuðum, þar af niður um 32 sæti frá því í maí því íslenska liðið var í 56. sæti á maílistanum. Íslenska landsliðið hefur nú farið niður um sæti á listanum fimm mánuði í röð en það gerðist einnig fyrri hluta ársins 2000 þegar lið fór úr 42. sæti í febrúar niður í það 56. á júlílistanum. Engin önnur þjóð hefur fallið hraðar niður listann á þessu ári en næst okkur kemur landslið Bosníu-Hersegóvínu sem hefur dottið niður um 22 sæti frá því að vera í 59. sæti í ársbyrjun niður í 81. sæti sem liðið er nú í á þessum nýja lista. Íslenska landsliðið hefur aðeins unnið einn af sjö landsleikjum sínum á árinu og töpin eru orðin fimm, þar af fjögur þeirra í fimm landsleikjum frá því í lok maí. Af gengi hinna liðanna í riðli Íslands er það frétt að Ungverjar hækka sig um átta sæti upp í það 68., Króatar hækka sig um tvö sæti upp í það 23. en Svíar og Búlgarar sitja í stað, Svíar í 22. sætinu en Búlgarar í sæti 41. Að lokum falla næstu mótherjar Íslands, Möltumenn, niður um þrjú sæti niður í 133. sæti listans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×