Sport

Held að þeir vilji hafa mig áfram

Þórarinn Kristjánsson var vissulega tvisvar sinnum nálægt því að innsigla þrennuna sína í bikarúrlsitaleiknum gegn KA í gær en tvö mörk og bikarmeistaratitill hljóta að gera þennan dag af einum þeim bestu. "Það er erfitt að fá betri dag en þennan. Ég hefði getað skorað þrennu en maður var fljótur að gleyma því þegar bikarinn var kominn í hús. Þetta er frábær stund félagið, klúbbinn, leikmennina, stjórnina og alla þá sem koma að Keflavíkurliðinu og ég er alveg þvílíkt ánægður með þetta. Það er alltaf bónus að vinna bikar en við megum ekki gleyma því að við komum upp úr 1.deildinni í fyrra og fimmta sætið er alveg viðeignandi árangur fyrir þetta lið á þessum tíma. Þó svo að við séum með hörkulið þá tekur alltaf tíma að koma sér inn í deildina aftur og nú stefnum við bara ofar. Það kemur reynsla með hverjum leik og hverju tímabili. Ef við höldum áfram að vinna með þetta lið þá getur á endanum enginn stoppað okkur. Þó svo að ég sé bara 23 ára þá er þetta níunda tímabilið mitt með Keflavík og við erum allir búnir að spila í þetta fjögur til fimm ár í meistaraflokki og eru engir unglingar í þessu lengur," sagði Þórarinn sem er með lausan samning. "Ég hef ekki hugmynd um hvað verður um mig. Samingurinn við Keflavík rennur út um miðjan október. Ég trúi ekki öðru en þeir vilji hafa mig áfram. Ég skoraði reyndar níu mörk í deildinni fyrir tveimur árum og 14 mörk í 1. deildinni í fyrra en ég held samt að þetta sé langbesta tímabilið mitt," sagði Þórarinn Kristjánsson sem skoraði 10 mörk í Landsbankadeildinni í sumar auk þess að setja tvö mörk í bikarúrslitaleiknum í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×