Sport

Besta liðið eftir þrjú ár

Fyrirliði Keflavíkur, Zoran Daníel Ljubicic, var himinlifandi í leikslok eftir að fyrsti bikar Keflvíkingar í knattspyrnunni í sjö ár var kominn á loft. "Þetta var alveg æðislega gaman. Við spiluðum frábæran fótbolta í fyrri hálfleik, skoruðu tvö mörk og fengum fullt að færum til viðbótar. Í seinni hálfleik duttum við kannski svolítið til baka en það var aldrei hætta og við áttum síðan að gera út um leikinn í nokkrum dauðafærum sem við fengum þá. Þetta var mjög verðskuldaður sigur," sagði Zoran sem var að vinna sinn fyrsta titil á Íslandi eftir tólf ár í íslenska boltanum. "Þetta er fyrsti stóri titilinn minn hér, ég hafði unnið einn Innanhúsmeistaratitil áður en nú fékk ég loksins að kynnast því að vinna bikarinn. Ég er að spila með mörgum ungum strákum sem hafa verið að taka sitt fyrstu skref í alvörunni í sumar og þetta var virkilega gaman og mikilvægt fyrir þá að vinna hér í dag. Reynslan úr þessum leik og frá þessu sumri á eftir að hjálpa þeim mikið í framtíðinni. Það er ágætis árangur að enda í fimmta sæti á sínu fyrsta ári í deildinni en ég held að við getum gert miklu meira en það sem við sýndum í ár. Ég trúi því að innan þriggja ár verði besta liðið á Íslandi í Keflavík. Það voru kaflar í sumar sem við vorum að spila mjög vel en það komu einnig kaflar þar sem við duttum niður. Þessir strákar hafa ekki þolað að fá mikla pressu á sig en þeir sýndu í dag að þeir geta mætt óhræddir í svona stóran leik og spilað sinn bolta. Strákarnir hafa safnað reynslu í sumar og það var dýrmætt fyrir þá að fá að upplifa það að vinna titil. Þessari tilfinningu gleymum við aldrei. Nú bíður okkar þátttaka í evrópukeppninni og ég vonast eftir að allir í bænum eigi eftir að styðja okkur í framhaldinu því við ætlum okkur að gera enn betri hluti," sagði Zoran sem er ekkert að hætta. "Já ég mæti aftur næsta sumar, ég er ekkert að hætta, það er nóg eftir hjá mér," sagði Zoran að lokum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×