Sport

Frábært að halda hreinu

"Þetta var alveg frábært að enda tímabilið með því að taka bikarinn. Það var að sjálfsögðu smá stress í manni þegar maður gekk út á völlinn en eftir að leikurinn var farinn í gang þá fann maður ekki fyrir því," sagði varnarmaðurinn Haraldur Guðmundsson sem átti mjög góðan leik í miðri vörn Keflavíkurliðsins sem spilaði allar 450 mínúturnar í VISA-bikarnum í sumar án þess að fá á sig mark. Þetta var góður leikur hjá okkur þótt að við höfðum spilað verr í seinni hálfleik og við gátum alveg bætt á þá mörkum. Allt liðið var að spila vel og við gerðum þetta saman sem ein liðsheild. Það var frábært að fara í gegnum bikarkeppnina með því að halda hreinu og við erum fyrsta liðið sem gerir það." "Við erum í þessu til þess að vinna titla og það er bara vonandi að við náum að bæta nokkrum við á næstu árum. Ég held að við höfum sýnt það í sumar að við getum unnið hvaða lið sem er en við getum líka tapað fyrir öllum. Við vorum algjört jó-jó-lið í deildinni en við vorum að koma upp, náðum fimmta sætinu og bætum núna bikarnum við þannig að ég er alveg fyllilega sáttur við sumarið," sagði Haraldur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×