Sport

Lífið verður erfiðara hjá Arsenal

Meistarar Arsenal, sem mæta Charlton í ensku úrvalsdeildinni í dag, hafa ekki tapað leik í ensku úrvalsdeildinni í sextán mánuði, eða alls í 47 leikjum í röð. Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, sem er eina liðið fyrir utan Arsenal sem er ósigrað eftir sjö leiki í ensku úrvalsdeildinni, segir að Arsenal hafi fengið létta byrjun í ensku úrvalsdeildinni og lífið muni verða erfiðara fyrir liðið þegar líða tekur á. "Þeir eiga eftir að mæta liðum eins og Manchester United og öðrum sterkum liðum og þegar liðið tapar loks fyrsta leiknum þá á það eftir að finna að lífið er ekki auðvelt. Önnur lið munu fá sjálfstraust því eins og staðan er í dag þá hafa ensk lið ekki trú á því að þau geti unnið Arsenal," sagði Mourinho. Varðandi fréttir af slagsmálum Arsenal-leikmannanna Patricks Vieira og Lauren eftir leikinn gegn Rosenborg í meistaradeildinni á miðvikudaginn sagðist Mourinho ekki gefa mikið fyrir þær. "Það koma alltaf upp vandamál í öllum fjölskyldum. Þegar tíu, tuttugu eða jafnvel þrjátíu menn eru saman í hóp og vinna saman þá koma alltaf upp einhver vandamál, sama hversu góður hópurinn er. Ég held að þetta atvik hafi ekki verið svo dramatískt," sagði Mourinho.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×