Sport

Willum til Vals

Valsmenn, sem spila á nýjan leik í Landsbankadeildinni í fótbolta á næsta tímabili eftir eins árs fjarveru á meðal þeirra bestu, hafa gengið frá munnlegu samkomulagi við Willum Þór Þórsson, fyrrum þjálfara KR-inga, um að hann stýri liðinu á næsta ári. Börkur Edvardsson, formaður knattspyrnudeildar Vals, staðfesti þetta í samtali við Fréttablaðið í gær og sagðist himinlifandi með að hafa nælt í Willum Þór. "Hann var alltaf fyrsti kostur okkar eftir að ljóst var að Njáll hafði málað sig út í horn með fljótfærnislegum ummælum sínum í fjölmiðlum. Það tók tíma að ná í hann í Portúgal þar sem hann er í fríi en ég vil ítreka að þetta er aðeins munnlegt samkomulag, það hefur ekki verið skrifað undir neitt," sagði Börkur. Aðspurður sagðist hann hafa trú á því að Willum Þór væri rétti maðurinn til að gera Val að toppliði í deildinni. "Hann er afar sigursæll þjálfari og við bindum vonir við að hann nái að festa liðið í sessi á meðal þeirra bestu. Við höfum fengið nóg af því að rokka á milli deilda og ætlum okkur að komast í fremstu röð. Ég trúi því að Willum Þór sé maðurinn sem getur látið það rætast," sagði Börkur og bætti við að Valsmenn hygðust fá fimm til sex leikmenn til liðsins fyrir baráttuna á komandi tímabili.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×